140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[17:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum um húsnæðismál er komið til, eins og fram hefur komið, vegna ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, varðandi starfsemi sjóðsins. Af því tilefni hefur hæstv. ríkisstjórn brugðist við með þeim hætti sem fram kemur í frumvarpinu.

Áður en ég kem að efni þessa frumvarps hef ég hugsað mér að mæla fyrir breytingartillögu sem ég hef flutt, á þskj. 1545, 734. mál, og snertir þetta mál. Þannig er mál með vexti að í mars, fyrir sléttum þremur mánuðum, lagði ég fram frumvarp til laga um breytingu á þessum sömu lögum sem lutu í meginatriðum að því að heimila Íbúðalánasjóði að fara þá leið sem Landsbanki Íslands fór varðandi skuldir heimilanna.

Það er tvennt sem ég vil taka fram almennt áður en ég kem að málinu sjálfu. Í fyrsta lagi vek ég athygli á því að Íbúðalánasjóður er að fullu í eigu ríkisins. Eins og nafnið bendir til hefur Íbúðalánasjóður einkanlega það hlutverk að lána til húsbygginga, bæði til einstaklinga og félaga, og hefur það auðvitað birst í margs konar formi. Kjarninn í því sem ég vil segja er að Íbúðalánasjóður er algerlega í eigu ríkisins — hann er sem sagt ríkisfyrirtæki sem lánar út peninga, þ.e. fjármálastofnun í eigu ríkisins.

Á hinn bóginn höfum við banka sem er að langmestu leyti í eigu ríkisins þó að ég hafi tekið eftir því að hæstv. forsætisráðherra er farin að boða einkavæðingu á þeim banka, a.m.k. að hluta til, sem er út af fyrir sig áhugavert. Eftir stendur að eins og sakir standa er Landsbanki Íslands banki eða fjármálastofnun sem er að langmestu leyti í eigu ríkisins.

Þá erum við komin í þá stöðu að annars vegar höfum við Landsbanka Íslands, ríkisbankann, sem hefur boðið upp á tiltekin úrræði fyrir skuldug heimili, skulduga íbúa, og hins vegar Íbúðalánasjóð sem hefur ekki átt þess kost að bjóða fram álíka úrræði og Landsbankinn. Af hverju skyldi það vera? Ætli það sé meinbægni stjórnvalda? Ætli það sé meinbægni stjórnenda Íbúðalánasjóðs? Ætli það sé meinbægni stjórnar Íbúðalánasjóðs? Ekkert af þessu er í raun og veru til staðar nema ef vera skyldi meinbægni íslenskra stjórnvalda almennt talað. Ég vil ekki ganga svo langt. Það sem hefur skort upp á er að engar lagalegar heimildir eru fyrir því að Íbúðalánasjóður fari þá leið sem Landsbanki Íslands, fjármálastofnunin, fjármálafyrirtækið, bankinn, sem er í eigu ríkisins, getur farið.

Þá erum við komin í þá undarlegu stöðu að einstaklingur sem hefur tekið sér lán til íbúðarkaupa í ríkisbankanum Landsbanka Íslands er í raun og veru betur settur en einstaklingur sem hefur tekið lán í ríkisfjármálafyrirtækinu Íbúðalánasjóði. Þetta er ástand sem við getum auðvitað ekki búið við.

Ég hef því leyft mér að flytja breytingartillögu sem er samkynja frumvarpi sem ég lagði fram, eins og ég nefndi áðan, í marsmánuði sl. með nokkuð ítarlegri greinargerð þar sem gerð er grein fyrir þeim viðhorfum sem liggja til grundvallar þessari hugsun. Ég leyfi mér að lesa breytingartillöguna eins og hún liggur fyrir eftir að hún var prentuð upp, en þegar henni var dreift upphaflega höfðu verið gerð smávægileg mistök sem hafa nú verið lagfærð í hinu uppprentaða eintaki og má finna á vefnum. Hefst þá lesturinn, með leyfi forseta:

„Á eftir 17. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:

a. (18. gr.)

2. og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XIV í lögunum orðast svo:

Heimilt er að færa niður veðkröfur samkvæmt 1. mgr. um allt að 15 millj. kr. hjá einstaklingum og um allt að 30 millj. kr. hjá hjónum, sambýlisfólki og einstæðum foreldrum enda sé veðkrafan á veðrétti umfram 110% af verðmæti eignar.“

Þetta er ákaflega mikilvægt atriði. Hér er eingöngu verið að taka til þeirra sem eru með lán umfram 110% þannig að við erum að fara í rauninni þá 110%-leið sem ríkisstjórnin boðaði og hefur verið lögfest.

Hefst nú lesturinn að nýju, með leyfi forseta, úr þessari breytingartillögu:

„Nemi niðurfærslan hærri fjárhæð en 10 millj. kr. hjá einstaklingi og 20 millj. kr. hjá hjónum, sambýlisfólki eða einstæðum foreldrum skal lækka niðurfærslu veðkröfu sem nemur veðrými á aðfararhæfri eign í eigu lántaka eða maka hans, að hluta eða heild, að því marki sem veðrýmið er umfram 1 millj. kr. að viðbættum tvöföldum útborguðum mánaðartekjum viðkomandi einstaklings.

Við verðmat fasteigna samkvæmt ákvæði þessu skal miða við fasteignamat. Þó er Íbúðalánasjóði heimilt að byggja verðmat á markaðsverði fasteignar yfir fasteignamat 2011. Ekki er rétt að mynda verðmæti eignar. Sé fasteign ekki fullbyggð miðast verðmæti við markaðsverð eignar. Til grundvallar mati á markaðsverði skal liggja verðmat löggilts fasteignasala sem Íbúðalánasjóður aflar á eigin kostnað.

b. (19. gr.)

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Íbúðalánasjóður skal endurgreiða einstaklingum 20% vaxta almennra lána og endurbótalána sem þeir greiddu sjóðnum á tímabilinu frá 31. desember 2008 til 1. janúar 2011.

Endurgreiðsla samkvæmt 1. mgr. fer aðeins fram eigi Íbúðalánasjóður ekki eða hafi átt vangoldna kröfu á hendur lántaka eldri en 90 daga gamla. Hafi lán verið endurútreiknað eða skilmálum þess breytt á tímabilinu frá 31. desember 2008 til 1. janúar 2011 skal aldur vangoldinnar kröfu miðaður við tímabilið frá upphafi greiðsludráttar fram að dagsetningu endurútreiknings eða skilmálabreytingar.

Hver einstaklingur getur að hámarki fengið endurgreidda vexti að fjárhæð 1 millj. kr.

Íbúðalánasjóður skal ráðstafa vaxtaendurgreiðslu samkvæmt 1. mgr. til niðurgreiðslu lána einstaklinga hjá sjóðnum á eigin kostnað. Eigi einstaklingur ekki lengur lán hjá sjóðnum skal vaxtaendurgreiðslan greidd út.“

Það sem hér er einfaldlega verið að gera er að færa þá leið sem í daglegu tali hefur verið kölluð landsbankaleiðin yfir á Íbúðalánasjóð í heimildarformi. Ástæðan fyrir því að það er gert er sú sem ég nefndi áðan, að fyrir hendi eru lagaskilyrði sem gera að verkum að Íbúðalánasjóður getur ekki vegna þeirra farið þá leið sem Landsbankinn hefur farið með góðum árangri. Niðurstaðan af því sem við höfum séð af úrræðum Landsbankans er sú að þau hafa gagnast mjög mörgum. Kosturinn við úrræðin er að þau eru tiltölulega fljótleg. Það er hægt að framkvæma þau tiltölulega hratt þannig að þeir sem eru í þeirri stöðu sem kveðið er á um í frumvarpinu og í þessum breytingartillögum við frumvarpið sem við ræðum núna geta þá fengið úrræði sín tiltölulega fljótlega afgreidd. Það skiptir miklu máli.

Það er engin spurning að þetta yrði til þess að létta á stöðunni hjá mjög mörgum, en það sem vakir fyrir mér einkanlega með þessari breytingartillögu er að tryggja það að þeir sem eru í þeirri stöðu, eins og ég nefndi, að eiga lán hjá Íbúðalánasjóði geti átt þess kost að fá frekari úrræði en þeir hafa notið frá Íbúðalánasjóði gagnvart skuldum sínum.

Eins og við munum var á sínum tíma gert samkomulag um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja og gert ráð fyrir því að fara hina svokölluðu 110%-leið. Gallinn hefur hins vegar verið sá að sú leið hefur verið framkvæmd mjög misjafnlega af einstökum fjármálastofnunum. Ég er búinn að rekja það efnislega út á hvað landsbankaleiðin hefur gengið en aðrir bankar hafa farið aðrar leiðir.

Íslandsbanki hefur til dæmis farið sína leið, sem ég ætla í sjálfu sér ekki að gera að umtalsefni, til að koma til móts við skuldug heimili og þar hefur þess verið freistað að ganga lengra en gert var ráð fyrir í lögunum.

Arion banki tilkynnti 26. janúar sl. að skilvísir einstaklingar í viðskiptum við bankann fengju sérstakan afslátt af greiðslum síðasta árs vegna lána þeirra hjá bankanum. Afslátturinn nam tveimur gjalddögum síðasta árs miðað við að 12 gjalddagar hefðu verið greiddir, þ.e. 16,7% af greiddum gjalddögum. Þá var líka veittur 30% afsláttur af vaxtagreiðslum síðasta árs vegna yfirdráttarlána en að meðaltali nemur greiðsla vegna íbúðalána 125 þús. kr. og greiðsla vegna yfirdráttarlána 13 þús. kr. Samtals fengu 33 þús. viðskiptavinir bankans greitt til baka frá Arion banka föstudaginn 27. janúar. Kostnaður vegna þessa frá Arion banka var áætlaður 2,5 milljarðar kr. Þar með er kostnaður bankans vegna aðgerða sem snúa að einstaklingum og heimilum orðinn 40 milljarðar kr. sem er rúmir 5 milljarðar umfram það svigrúm sem bankinn telur að hann hafi fengið við yfirtöku lánanna frá gamla Kaupþingi yfir til Arion banka.

Af þessu blasir við að bankar eru í vaxandi mæli að koma til móts við viðskiptamenn sína. Þá stendur eftir að Íbúðalánasjóður hefur ekki haft lagalegar heimildir til að bjóða sambærileg úrræði og þar með skapast ójafnræði á milli skuldara þar sem helst virðist halla á viðskiptavini Íbúðalánasjóðs. Það blasir því við hverjum einasta manni að við svo búið getur ekki lengur staðið. Það er að minnsta kosti eðlilegt að jafnræði verði látið gilda um þá sem eru með íbúðalán sín í ríkisstofnuninni Íbúðalánasjóði og þá sem tóku sams konar lán í Landsbanka Íslands sem er að langstærstum hluta í eigu ríkisins.

Í þessu sambandi vek ég athygli á að í skýrslu eftirlitsnefndar sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, kemur fram í samantektarkafla skýrslunnar, með leyfi forseta:

„Nefndin telur að 110%-úrræðið hafi verið útfært of þröngt í samkomulaginu frá 15. janúar 2010 og hefði mátt vera einfaldara og þar með fljótlegra í framkvæmd. Með því að miða við 110% af fasteignamati í stað markaðsvirðis ódýrari eigna, láta aðrar aðfararhæfar eignir ekki dragast frá niðurfærslu að ákveðnu marki og taka upp fríeignamark með fastri fjárhæð, hefði mátt einfalda og flýta málum að mati nefndarinnar. Aðilar samkomulagsins hefðu átt að standa að sameiginlegri, samræmdri breytingu á samkomulaginu í stað þess að standa hver að sinni útfærslu á úrræðinu þegar í ljós kom hversu erfitt það var í framkvæmd.“

Þetta er ákaflega mikilvæg ábending og ber að harma það að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki treyst sér til að bregðast við þessu máli með einhverjum hætti. Það er því nauðsynlegt að gera þær lagabreytingar núna sem þessi breytingartillaga kveður á um úr því að þær koma ekki frá hæstv. ríkisstjórn.

Í þessu sambandi vil ég líka nefna að mánuðum saman, liggur mér við að segja, hefur verið boðað að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hyggist á næstunni leggja fram tillögur um aðgerðir fyrir skuldug heimili. Margoft hefur verið kallað eftir því hvar þessi mál væru á vegi stödd. Ég kallaði til dæmis eftir því núna síðast í morgun, löngu áður en þessi umræða hófst, hvort þess væri ekki að vænta að slíkar tillögur kæmu fram. Ég vakti athygli á því að núna liggur nokkurn veginn fyrir að það stefni í sumarþing í júlí og þá væri auðvitað góður kostur fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að ljúka vinnu sinni við að gera tillögur til úrbóta fyrir skuldug heimili og leggja fram slíkar tillögur þannig að menn gætu þá tekið afstöðu til þeirra.

Ég nefndi það líka áðan að ég hafði lagt þetta mál fram í marsmánuði og auðvitað gert mér vonir um að málið kæmist með eðlilegum hætti til efnahags- og viðskiptanefndar sem gæti þá tekið afstöðu til málsins. Það hefur ekki tekist og þess vegna sé ég mér ekki aðra leið færa en reyna að koma þessu máli á dagskrá með því að leggja fram þessa breytingartillögu.

Menn velta kannski fyrir sér hvort þessi breytingartillaga sé svo frábrugðin efni þess frumvarps sem hér um ræðir að ekki sé eðlilegt að hún komi til umfjöllunar. Svarið er þá þetta: Hún hefur í fyrsta lagi verið borin upp og veitt hafa verið afbrigði til að tryggja það að hún kæmist á dagskrá. Í öðru lagi eru auðvitað mýmörg dæmi um það að menn hafa flutt tillögur sem hafa ekki verið nákvæmlega í samræmi við meginkjarna þeirra þingmála sem hafa síðan verið á dagskrá. Síðan er það hitt að málið er auðvitað mjög brýnt því að það snertir hag heimilanna í landinu.

Mikil samstaða virðist vera um að leita leiða til að minnka skuldabyrði heimilanna. Ekki hefur nægilega mikið verið gert í þeim efnum. Það vill svo til að langstærsti lánardrottinn heimilanna í landinu er Íbúðalánasjóður og þess vegna er alveg ljóst að þessi mál hljóta að þurfa að koma á dagskrá og ég er með þessari breytingartillögu að setja þetta mál á dagskrá í samhengi við þær efnismiklu breytingar sem verið er að gera á starfsumhverfi Íbúðalánasjóðs og eru auðvitað almenns eðlis. Það er verið að gera breytingar á verkefnaskilgreiningu Íbúðalánasjóðs, skipulagi og mati á rekstri og áhættu og eftirliti með starfsemi sjóðsins og fyrirkomulagi og skilyrði lánveitinga þannig að þessi tillaga rímar, að mínu mati, prýðilega við það sem verið er að gera með breytingum á sjóðnum og á þess vegna fullt erindi í þessa umræðu.