140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[17:43]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir þetta frumvarp, á hverju það tekur og benti á galla sem ég tel vera á frumvarpinu og galla sem gætu jafnvel leitt til þess að það sem málinu er ætlað að lagfæra leiði til annarra athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA um starfsemi sjóðsins varðandi ríkisaðstoð.

Ég get að nokkru leyti tekið undir þær niðurstöður Eftirlitsstofnunar EFTA að Íbúðalánasjóður njóti ríkisaðstoðar í formi eigendaábyrgðar. Við vitum að ríkið baktryggir fjármögnun sjóðsins, vaxtaniðurgreiðslur, undanþágu frá arðsemiskröfu og greiðslu tekjuskatts. Ég hefði haldið að í kjölfar hrunsins og gríðarlega mikilla breytinga sem orðið hafa á fjármálamarkaði væri núna upplagt tækifæri til að breyta eðli og umfangi Íbúðalánasjóðs.

Viðskiptabankar þekkja best greiðslugetu viðskiptavina sinna út frá sögu og öðru slíku og þekkja best þá áhættu sem fylgir hverjum viðskiptavini, m.a. vegna upplýsinga sem fást vegna útibúanets bankanna. Útibúanetið er náttúrlega um allt land þrátt fyrir að nú sé verið að loka einhverjum útibúum. Ég held því að eðlilegt sé að viðskiptabankarnir sjái um að lána út í gegnum net sitt.

Hlutverk Íbúðalánasjóðs gæti hæglega breyst í að verða heildsölubanki sem sæi um fjármögnun á íbúðalánastarfsemi viðskiptabankanna. Þessi hugmynd hefur heyrst áður en mönnum leist ekki á að framkvæma hana vegna þess að þeir töldu að Íbúðalánasjóður hefði sérstakt félagslegt hlutverk. Ég tel reyndar að sú niðurstaða sé á misskilningi byggð vegna þess að hæglega er hægt að lækna markaðsbresti á einhverjum stöðum þar sem einkafjárfestar eru ekki tilbúnir að bjóða fram lánsfjármagn með því að Íbúðalánasjóður verði bakhjarl þeirra. Á þann hátt væri hægt að hafa mun betra eftirlit með þeirri áhættu sem fylgir hverju íbúðaláni eða hverjum viðskiptavini. Það væri hægt að gera þetta á mun ódýrari hátt og síðast en ekki síst væri hægt að eyða þeirri samkeppni sem niðurgreidd íbúðalán, samkvæmt niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA, veita viðskiptabönkunum þannig að tekjumöguleikar þeirra gætu orðið betri sem þýddi að bankakerfið á Íslandi yrði burðugra.

Ég sagði í fyrri ræðu minni að ég teldi að þrátt fyrir að margt ágætt væri í þessu frumvarpi ætti ekki að keyra það fram eins og gert er núna heldur ætti að gera mun umfangsmeiri breytingar á Íbúðalánasjóði en hér er lagt til og kerfinu öllu. Ég hefði gjarnan viljað sjá lagt til að Íbúðalánasjóður yrði heildsölubanki fyrir viðskiptabankana.