140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[18:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir þessar vangaveltur og mikilvægu spurningu um séreignarstefnuna í íslensku samfélagi. Ég held að þetta sé ákveðin grundvallarspurning, viljum við halda áfram að hvetja fólk til að eignast þakið sem það kemur sér yfir höfuðið? Fólk hefur svo sannarlega álitið það sem sparnað í gegnum tíðina að fjárfesta í fasteign. Ég held að það væri glapræði að hverfa frá þeirri stefnu, ég er ekki sammála því að hverfa frá henni.

Hins vegar vil ég líka nálgast þetta út frá þeirri stefnu sem við sjálfstæðismenn höfum almennt í flestum málaflokkum og það er að skapa fólki valfrelsi, að við veitum fólki svigrúm ef það kýs að fara leigumarkaðsleiðina. Það verði til staðar ákveðinn markaður þannig að fólk geti, ekki síst fólk sem er að byrja búskap eða er í námi, valið á milli þess að fara í húsnæðiskaup eða inn á leigumarkað.

Ég hef búið í útlöndum þar sem er minna um þessa séreignarstefnu. Það hefur hentað þeim löndum ágætlega. Ísland er hins vegar byggt upp með öðrum hætti. Af því að hér var talað um séreignina sem sparnað þá höfum við líka byggt upp mjög farsællega lífeyrissjóðakerfi með öðrum hætti en annars staðar í Evrópu. Ég held að það verði að skoða þetta tvennt saman þegar við berum okkur saman við útlönd.

Mitt svar er því: Ég held að við eigum alls ekki að hverfa frá séreignarstefnunni í húsnæðismálum en við eigum að reyna að móta umhverfið þannig að fólk hafi ákveðið val. Ég kem síðar að félagslega þættinum og félagslegu uppbyggingunni sem ég held að sé afar mikilvægt að við tryggjum með ákveðnum leiðum.