140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[18:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Þetta mál snýst, eins og fram hefur komið, að verulegu leyti um þá niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA að Íbúðalánasjóður nyti ríkisaðstoðar. Ekki er hægt að ræða þetta mál án þess að fara aðeins yfir hið mikilvæga samfélagslega gildi Íbúðalánasjóðs. Á meðan góðærið stóð sem hæst og mjög auðvelt var að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði átti fólk á mörgum strjálbýlustu svæðum landsins gríðarlega erfitt með að fá slíka fjármögnun. Lengi vel var það einungis Íbúðalánasjóður sem var tilbúinn til að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði í þessum smærri byggðarlögum.

Eins og kemur fram í minnihlutaáliti Eyglóar Harðardóttur er það afstaða minni hlutans að Íbúðalánasjóður gegni lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði. Við þekkjum öll söguna og munum eftir því að á sínum tíma töluðu ákveðin öfl innan Sjálfstæðisflokksins mjög stíft fyrir því að Íbúðalánasjóður skyldi einkavæddur og að hann skyldi ekki fá að gegna því félagslega hlutverki sem hann hefur — og ég hef rakið hér hversu mikilvægt það er.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að mér fannst það ekki koma nægilega skýrt fram í ræðunni: Er hv. þingmaður sammála því sem kemur fram í áliti minni hluta velferðarnefndar að Íbúðalánasjóður gegni lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði? Það sýndi sig fyrir hrun á strjálbýlustu svæðunum. Eða tilheyrir hv. þingmaður þeim hluta Sjálfstæðisflokksins sem telur að heppilegast sé að einkavæða Íbúðalánasjóð?