140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[18:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það fer nú bara að verða spurning hvenær minni hluti verður að meiri hluta og meiri hluti að minni hluta. Hitt vegur þyngra í umræðunni um Íbúðalánasjóð, líka innan Sjálfstæðisflokksins, að við verðum að tala meira um félagsleg úrræði, meðal annars á íbúðamarkaði.

Við þurfum að tryggja að fólk sem á í erfiðleikum með að koma sér upp þaki yfir höfuðið, hvort sem það er hér á suðvesturhorninu eða á landsbyggðinni, hafi aðgang að ákveðnum úrræðum. Ég sagði áðan að ég treysti ekki bara Íbúðalánasjóði til þess heldur líka öðrum lánastofnunum fullvel til að standa undir slíku ef þeim er markaður ákveðinn rammi. Það hefur hins vegar ekki verið gert þannig að ég hefði gjarnan viljað sjá Íbúðalánasjóð þróast með skarpari hætti en áður varðandi það að tryggja stöðu hans og hlutverk til lengri tíma litið og þá að sjá hann í minnkandi mæli í þessari samkeppnisstöðu sem hann er raunverulega í á markaði.

Ég vil vitna í það sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson hefur verið að draga fram. Hann segir mjög sérkennilegt að Íbúðalánasjóður gangi ekki jafnlangt fram gagnvart skuldugum heimilum og annar banki sem er í eigu ríkisins, Landsbankinn. Landsbankinn er algjörlega í eigu ríkisins og af hverju gengur Íbúðalánasjóður ekki fram fyrir skjöldu og hjálpar líka mjög skuldugum heimilum, sem ég kom meðal annars inn á í minni ræðu, til að fá lausn sinna mála?

Við vitum að fólk með verðtryggð lán, ekki síst frá árunum 2007, 2008 og hugsanlega í byrjun 2009, er fast inni með lánin sín. Það eru engar úrlausnir fyrir þennan hóp hjá Íbúðalánasjóði en öðru máli gegnir þegar kemur að hinum ríkisbankanum sem er Landsbankinn. Það er þess vegna sem ég hef verið að benda á að það vantar skýra stefnu um hvert ríkið er að fara á íbúðalánamarkaði. Það er ekki hægt að tala um þetta mál nema við skoðum hlutdeild ríkisins í heild á fjármálamarkaði.