140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

peningamálastefna Seðlabankans.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég sé sátt við þá stýrivaxtahækkun sem Seðlabankinn ákvað í gær, ég held að það gildi um alla að það er enginn sáttur við stýrivaxtahækkanir. Ég hef oft verið ósátt við þær stýrivaxtahækkanir sem Seðlabankinn hefur farið í. Auðvitað beitir Seðlabankinn því tæki sem hann hefur til að sýna aðhald í peningastefnunni og aðhald að því er varðar verðbólguna og verðbólgan hefur verið aðeins upp á undanförnum vikum þó að við sjáum breytingar í rétta átt. Þess vegna verð ég að segja að það kom mér nokkuð á óvart að hækkun skyldi verða á stýrivöxtunum af því að ég tel að verðbólgan sé að stíga í rétta átt. Gengið hefur verið eins og við þekkjum það en ég tel að Seðlabankinn sé að reyna að gera sitt besta til að halda utan um peningaaðhaldið og stöðugleikann í samfélaginu sem er þeirra skylda.

En það eru margir hagvísar sem eru okkur hagstæðir um þessar mundir. Við sjáum að hagvöxturinn er að fara upp, atvinnuleysið er að fara niður. Það er óróleiki á erlendum mörkuðum sem hefur áhrif hér en það er verið að skoða peningastefnuna og ekki síður gjaldmiðlamálið og meðal annars í samráði við stjórnarandstöðuna. Það eru tvær nefndir í því máli og ég held að hún skipti verulegu máli sú niðurstaða sem við fáum úr þeirri vinnu sem fram fer í Seðlabankanum um valkosti í gjaldmiðlamálum. Það skiptir verulegu máli upp á framtíðina hvernig vaxtastigið verður og hvort við getum haldið stöðugleika á okkar (Forseti hringir.) gjaldmiðli eða hvaða leiðir við eigum að fara í því efni.