140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

aðgerðir gegn einelti.

[10:51]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir að það þarf auðvitað að kynna foreldrum réttarstöðu þeirra. Það er gríðarlega mikilvægt að skólarnir gefi afar skýr skilaboð um að við sættum okkur ekki við einelti í einu eða neinu formi og það eru engar afsakanir til fyrir gerendur. Þolandinn getur aldrei verið gerandinn eða sá sem á sök í eineltismálum. Þessi skilaboð þurfa að vera skýr.

Núna er verið að vinna að spurningalista til allra grunnskóla þar sem líka er verið að skoða hvaða áætlanir liggja fyrir, hvernig þeim er beitt og hvaða ráðum hver einstakur skóli beitir. Það eru sams konar fyrirætlanir varðandi öryggisáætlanir í ráðuneytum og á vinnustöðum um hvernig bregðast eigi við einelti. Við þurfum að vinna afar vel að þessum málum á öllum vígstöðvum vegna þess að einelti þrífst því miður ekki bara í skólum heldur á vinnustöðum og afar víða úti í samfélaginu og við eigum ekki að sætta okkur við að það viðgangist (Forseti hringir.) undir neinum kringumstæðum. Ég deili áhyggjum hv. þm. Guðrúnar H. Valdimarsdóttur og þakka henni fyrir að taka málið hér upp.