140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

þjónustusamningur við Reykjalund.

[10:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. velferðarráðherra um þá stöðu Reykjalundar að ekki hefur verið undirritaður þjónustusamningur þar frá áramótum. Eins og flestum er kunnugt þjónar Reykjalundur mikilvægu hlutverki innan heilbrigðisþjónustunnar og þjóðhagslegur ávinningur af því að koma fólki sem fyrst út í atvinnulífið eftir alvarlega sjúkdóma eða slys er óumdeildur.

Það hefur komið í ljós að þeir sem eru á Reykjalundi eru annaðhvort sendir beint frá LSH Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi, eða eftir tilvísun lækna. Þar er sagt að meðalaldur skjólstæðinga Reykjalundar sé 50 ár og því er um að ræða fólk á vinnufærum aldri og afar mikilvægt og brýnt að endurhæfing þess sé tryggð og þeir einstaklingar komist aftur út í samfélagið.

Nú er Sjúkratryggingastofnun Íslands undirstofnun velferðarráðuneytisins og hæstv. velferðarráðherra ber á því ábyrgð. Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því að fimm mánuðum frá því að þjónustusamningur rann út hafi ekki verið endurnýjaður þjónustusamningur við jafnmikilvæga stofnun innan heilbrigðiskerfisins og Reykjalundur er? Hvernig hyggst hæstv. ráðherra skoða þetta mál og hvernig hyggst hann beita sér í því að jafnmikilvæg stofnun og Reykjalundur fái það fjármagn sem úthlutað er á fjárlögum? Samkvæmt þjónustusamningi og í fjárlögum fyrir árið 2012 var skýrt og skorinort kveðið á um fjárframlög til handa Reykjalundi en þjónustusamningur hefur enn ekki verið undirritaður.

Virðulegi forseti. Þetta vinnulag að setja stofnun sem er jafnmikilvæg í samfélaginu og Reykjalundur er undir það að starfa án þjónustusamnings frá áramótum er algerlega óásættanlegt. Ég spyr hæstv. velferðarráðherra: Hvernig hyggst hann bregðast við því ófremdarástandi sem Reykjalundur stendur frammi fyrir?