140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

aðgerðir til bjargar Spáni og vandi evrunnar.

[11:04]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er ekki um að ræða tímabundinn vanda. Þetta er vandi sem magnast og mun magnast enn frekar ef ekki er gripið til aðgerða. Þær aðgerðir eru að breyta ESB yfir í sambandsríki. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra að því hvort hún sé enn þeirrar skoðunar að það sé styrkleikamerki fólgið í því að sækja um aðild að hinni sameiginlegu mynt eins og talað var um þegar verið var að ákveða umsókn að ESB.

Ég vil jafnframt segja þetta: Það er augljóst að ef evrunni á að bjarga þarf að breyta ESB í áttina að því að gera það að sambandsríki.

Ég vil í fyrsta lagi inna forsætisráðherra eftir því hvort hún sé enn þeirrar skoðunar að þetta sé styrkleikamerki fyrir okkur Íslendinga. Ég vil líka kalla eftir öðru í tilefni orða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra; hvort það sé ástæða fyrir okkur ef evrunni verður bjargað og Evrópa verður að sambandsríki, að skoða aftur (Forseti hringir.) og taka upp þá umsókn sem liggur inni núna. Er ekki ástæða til að við skoðum á Alþingi hvort við ættum að halda áfram með hana?