140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur blasað við alllengi að gera þyrfti breytingar á lagaumhverfi Íbúðalánasjóðs. Það lá fyrir í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í. Ef ég man rétt voru til dæmis lánveitingar annarra þjóða, Norðurlandaþjóðanna — ég hygg að ég muni það rétt — að einhverju leyti skilyrtar því að gerðar yrðu breytingar á lagaumhverfi Íbúðalánasjóðs vegna þess að menn töldu ekki skynsamlegt að leggja til aukið fé inn í íslenskt hagkerfi á sama tíma og slík staða væri uppi varðandi Íbúðalánasjóð. Sú ábyrgð á þeim breytingum hvíldi á herðum þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra. Hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra, núverandi forsætisráðherra, verður þá bara að svara því hvernig hún brást við þessu á sínum tíma. Út af fyrir sig skil ég það vel að gera þurfi breytingar á umhverfi Íbúðalánasjóðs til að bregðast við að einhverju leyti þeirri gagnrýni sem hefur komið fram á sjóðinn eins og allir vita.

En stóra málið finnst mér vera það eins og kemur fram í breytingartillögu minni að Íbúðalánasjóður, ef hann á að starfa áfram sem ég vil gjarnan að hann geri, þarf að geta gert það með þeim hætti að hann hafi a.m.k. sömu úrræði (Forseti hringir.) gagnvart skuldurum sínum og mögulegum lánveitendum eins og aðrir bankar í landinu.