140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi kannski komið að kjarna málsins þegar verið er að tala um framtíð Íbúðalánasjóðs, þ.e. þeirri staðreynd að ég og hv. þingmaður erum kannski ekki alls kostar sammála um framtíðarsýn sjóðsins.

Ég rifjaði upp í ræðu minni áðan átök sem voru á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á sínum tíma um framtíð Íbúðalánasjóðs. Það er algjör grundvallarforsenda að ef menn ætla af hálfu okkar framsóknarmanna að fara í það að skoða starfsemi sjóðsins frá grunni þá sé það gert á þeirri forsendu að Íbúðalánasjóður eigi að starfa áfram á félagslegum grunni. Hann gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki. Þess vegna ítrekaði ég það í mínu fyrra andsvari að ætli menn í þann leiðangur þá sé það gert á þeirri forsendu en ekki þeirri að skoða hvort skynsamlegt sé að Íbúðalánasjóður starfi eður ei. (Gripið fram í.) Það er það sem maður hefur áhyggjur af gagnvart ákveðnum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) að þeir séu að tala fyrir (Forseti hringir.) þessum þáttum á annarri forsendu.