140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:43]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hæstv. ráðherra hafi ekki fylgst nægilega vel með þessum umræðum því að ég hef einmitt verið að gagnrýna meðal annars málflutning hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins í málinu og hef lagt gríðarlega áherslu á mikilvægi Íbúðalánasjóðs og hvernig horft verði til framtíðar. Ég hef gagnrýnt margt af því sem sjálfstæðismenn hafa sagt og um framtíðarsýn þeirra sem ég hef áhyggjur af og ég hef verið í andsvörum við þá.

Varðandi það að koma til móts við skuldsett heimili þá er það nú mjög sérstakt þegar hæstv. velferðarráðherra talar um að kasta peningum út um gluggann þegar verið er að tala um að koma til móts við skuldsett (Velfrh.: Í almennum leiðréttingum.) heimili og fyrirtæki. Í almennri leiðréttingu verður auðvitað ríkisstjórnin að axla ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru þegar samið var á milli nýju og gömlu bankanna. Þegar talað er um almenna leiðréttingu þá var það svo fyrr á þessu ári að ekki var svigrúm hjá bönkunum til almennra leiðréttinga. Síðan féll einn dómur mjög óvænt, þá var svigrúm (Forseti hringir.) til að takast á við þann dóm. Það var ekki svigrúm hálfum mánuði áður til að koma til móts við skuldsett heimili.

Vandi hæstv. ríkisstjórnar er að hún (Forseti hringir.) starfar fyrir fjármálakerfið í landinu (Forseti hringir.) en ekki fólkið.