140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var hressileg ræða hjá hv. þingmanni. (PHB: Og góð.) Ég get ekki sagt að ég sé sammála öllu sem kom fram í máli hv. þingmanns. Hv. þingmaður sagði að það sem hann vildi gera væri annaðhvort að leggja Íbúðalánasjóð niður eða selja hann. Um þetta hefur ríkt töluverður ágreiningur.

Ég rifjaði upp í ræðu minni áðan að á árunum fyrir hrun þegar staðreyndin var sú að fjármagn flæddi út úr öllum fjármálastofnunum og mögulegt var að fá lán fyrir nánast hverju sem er, kaupum á íbúðarhúsnæði, byggingu á íbúðarhúsnæði, var víða á landsbyggðinni, á stórum hluta landsins, ekki mögulegt að fá fjármögnun til kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði nema á einum stað. Það var hjá Íbúðalánasjóði. Það var ekki mögulegt að fá fjármagn neins staðar annars staðar. Jafnvel þótt menn færu inn í þessar stóru fjármálastofnanir þar sem fjármagnið flæddi. Menn sögðu: Ég ætla að byggja hús. Já, hvar ætlarðu að byggja það? Ég ætla að byggja það utan höfuðborgarsvæðisins. Þá var allt lok og læs. Íbúðalánasjóður kom hins vegar til móts við þessi svæði.

Þegar hv. þingmaður segir að hann vilji leggja Íbúðalánasjóð niður eða selja hann, hvað vill hann segja við þá einstaklinga og þau byggðarlög sem þurftu að sækja fjármagn til Íbúðalánasjóðs á sínum tíma? Hvaða lausnir eða möguleika sér hann fyrir þessi svæði? Ef tillaga hv. þingmanns hefði náð fram að ganga til að mynda fyrir tíu árum síðan, hefðum við þá horft upp á það að ekki hefði verið lánað til íbúðakaupa eða byggingar á húsnæði á þessum svæðum?

Þetta eru áhyggjur margra sem fjalla um þessi mál. Mig langar að fá hv. þingmann til þess að fara aðeins yfir (Forseti hringir.) hvernig hann sér þetta fyrir sér út frá því sem hann leggur til.