140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Markaðurinn aðlagar sig aðstæðum. Og ef það er til stofnun, stór ríkisstofnun sem dælir út peningum með ríkisábyrgð hvert sem er, fyrir hvern sem er, aðlagast kerfið því. Ef Íbúðalánasjóður hefði ekki verið til hugsa ég að sparisjóðir víða út um land hefðu styrkst með því að lána til íbúðabygginga á staðnum. Það var nefnilega þannig fyrir hrun, að minnsta kosti löngu fyrir hrun, að sparisjóðirnir voru þeir aðilar sem þekktu til í byggðarlögunum. Þeir fóru því miður dálítið glannalega fyrir hrun og gleymdu því hlutverki sínu að standa nálægt byggðunum, nálægt nágrönnunum.

Ég hugsa að sparisjóðirnir gætu vaxið upp aftur ef þeir væru ekki í vonlausri samkeppni við Íbúðalánasjóð. Það er nefnilega málið. Þeir geta ekki lánað til íbúða á Ísafirði eða Bolungarvík eða öðrum góðum stöðum í samkeppni við Íbúðalánasjóð sem veitir lán villt og galið, alveg án tillits til nokkurs, með ríkisábyrgð. Vandinn er kannski að Íbúðalánasjóður er búinn að skemma frá sér með þessum hætti. (BJJ: Nei.)

Hér kom mjög eindregið nei án rökstuðnings, ég veit ekki hvernig ég á að taka því. En það er hugsanlegt að þetta nýja húsnæðisbótakerfi hafi kannski einhvern anga þar sem aðilum væri lánað. Vandinn er aðallega endursölumöguleikinn. Er hægt að selja eignirnar aftur á þessum stöðum? Það má vel vera að þetta nýja kerfi gæti boðið upp á einhverja lánamöguleika til leiguhúsnæðis eða slíks á þeim stöðum þar sem ekki er um að ræða að stóru bankarnir láni. Ég hugsa nú að þegar í harðbakkann slær og menn fá ekki lán, (Forseti hringir.) finnist alltaf einhver sem veiti lán. — Ég sé að klukkan er stöðvuð.

(Forseti (ÁI): Klukkan er stopp í borðinu en tímamæling fer fram hjá forseta. Ræðutíma í svari við andsvari er lokið, hv. þingmaður.)

Ég hélt að tíminn væri stopp.