140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru loðin svör til landsbyggðarinnar svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hv. þingmaður talaði um að sparisjóðirnir hefðu þekkt til í byggðum landsins. Ég man eftir því áður en ég tók sæti á Alþingi að ég fylgdist með því þegar hv. þingmaður talaði um að í sparisjóðunum væri fé án hirðis og sparisjóðina yrði að hlutafélagavæða. Þá var stigið fyrsta skrefið í að rústa sparisjóðakerfinu. Hv. þingmaður segir: Ég hugsa að einhverjir muni vilja lána til hinna dreifðu byggða. Reynslan sýnir því miður hið gagnstæða. Á mörgum svæðum var einungis Íbúðalánasjóður tilbúinn til að fjármagna kaup eða byggingu á íbúðarhúsnæði í hinum dreifðu byggðum.

Þessir hlutafélagavæddu bankar, þessir bankar með fé sem hafði hirði, þeir lánuðu í nánast hvaða vitleysu sem var. En ef þú ætlaðir að gera svo lítið að byggja eða kaupa íbúðarhús í litlu þorpi úti á landi, var það bara Íbúðalánasjóður sem var tilbúinn til að fjármagna það. Og það er ekki nóg að hv. þingmaður segi að hann hugsi að einhver muni vilja fjármagna byggingar eða íbúðakaup eða annað úti á landi, það verður að vera alveg tryggt. Það er það ekki miðað við málflutning hv. þingmanns.