140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þetta síðasta þá er samkeppnin náttúrlega ekki eðlileg þegar annar aðilinn er með ríkisábyrgð á öllu fé sem hann veitir út. (Gripið fram í.) Það getur aldrei orðið eðlilegt. Það er einmitt það sem Eftirlitsstofnun EFTA gerir athugasemdir við og er orsök þessa frumvarps. Ég hélt að menn tækju mark á því. Það er ekkert sem segir að þetta frumvarp dugi til að fullnægja þeim athugasemdum, það getur vel verið að það komi aftur athugasemd og þá þarf að gera enn eina breytinguna. Ég held að það sé miklu betra að leggja Íbúðalánasjóð niður strax eða minnka hann niður í það sem ég sagði, hann gegni þá virkilega félagslegu hlutverki og þá gagnvart byggðum þar sem ekki fást lán annars.

Varðandi leigumarkaðinn. Það er svo merkilegt, frú forseti, að öll umræðan um húsnæðismál snýst um skuldara og hefur gert það síðan ríkisstjórnin tók við. Hún hefur snúist um skuldara, 110%-leið, umboðsmann skuldara og ég veit ekki hvað og hvað. Enginn hv. þingmaður hefur talað um leigjendur fyrir utan mig. Það er svo merkilegt. Það virðist vera að ég sé sá eini á Alþingi sem talar eitthvað um vandamál leigjenda sem borga síhækkandi leigu sem bæði er verðtryggð og fer hækkandi á markaðnum. (LGeir: Við erum tveir.) Það getur vel verið að hv. þingmaður hafi nefnt það, ég hef þá ekki verið í salnum akkúrat þá, en ég er nokkuð þaulsetinn og þykir sumum meira segja um of og tala um málþóf og annað slíkt þegar maður ræðir efnislega um hlutina. Meira að segja er þessi ræða sem ég er að halda hérna kölluð málþóf, er ég þó að svara hv. þingmanni og leggja áherslu á að ríkisstjórnin verði að fara að huga að þessum 25% heimila á landinu sem leigja sitt húsnæði og eru sum hver í mjög slæmri stöðu en fá enga aðstoð vegna þess að þau skulda ekki. Það má vel vera að þetta nýja húsnæðisbótakerfi hjálpi einmitt því fólki, þess vegna styð ég það, enda er þetta byggt á mínum hugmyndum frá því fyrir tíu, ellefu árum.