140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt, það er heilmikill munur á stefnu framsóknarmanna og Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að húsnæðismálum. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að Íbúðalánasjóður hafi sérstaklega safnað tapi frá stofnun árið 1999. Mig minnir að árið 2007 eða 2008 hafi eigið fé sjóðsins verið um 25 milljarðar kr. Síðan varð efnahagshrun hér á landi og það er óeðlilegur málflutningur að halda því fram að stofnun eins og Íbúðalánasjóður hefði nokkurn tímann komist í gegnum heilt bankahrun. Sú staðreynd að gjaldmiðillinn féll og verðtryggð lán hækkuðu upp úr öllu valdi hafði áhrif á starfsemi sjóðsins og hefði alltaf haft. Annað er einfaldlega óraunhæft. Ef við skoðum framlög hins opinbera sem hlutfall af þessu hruni sem varð var gjaldþrotið um 12 þús. milljarðar kr. Ég held að búið sé að setja um 30 milljarða í Íbúðalánasjóð sem er, ef mér skjátlast ekki, svona svipað og ríkissjóður er að leggja núna til Sparisjóðs Keflavíkur sem var sparisjóður á Suðurnesjum. Ef við setjum þetta af sanngirni í þetta samhengi finnst mér ómaklega vegið að Íbúðalánasjóði í þessari umræðu.

Hv. þingmaður sagði að hann talaði fyrir sig sjálfan. Mér þætti áhugavert ef hv. þingmaður gæti frætt okkur um stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum Íbúðalánasjóðs. Ég þekki marga ágæta sjálfstæðismenn á landsbyggðinni sem vilja standa vörð um Íbúðalánasjóð, sérstaklega í ljósi sögunnar, að sjóðurinn hefur frá upphafi þjónað öllum, ekki síst köldum svæðum þar sem erfiðleikar hafa átt sér stað, oft í samstarfi við smærri sparisjóði. Er það virkilega svo, frú forseti, að vilji sé til þess að veikja þessa stofnun það mikið að hún geti ekki staði undir þessu mikilvæga hlutverki sínu?