140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður reyndi að stilla málum þannig upp að einhver sérstök ógn stafaði af því fyrir framtíð Íbúðalánasjóðs að Sjálfstæðisflokkurinn hefði svo mikla löngun til að leggja sjóðinn niður. Nú er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafði um það forustu á sínum tíma að setja þau lög í meginatriðum sem gilda um Íbúðalánasjóð vegna stjórnarforustu sinnar í landinu á þeim tíma.

Ég tel ekki að sú pólitíska ógn sem hv. þingmaður telur sig sjá sé það sem ógnar Íbúðalánasjóði. Það sem hins vegar ógnar Íbúðalánasjóði eru aðstæður á markaði sem sjóðurinn, meðal annars af lagalegum ástæðum, á erfitt með að bregðast við. Í fyrsta lagi hefur áhugi lántakenda á því að taka óverðtryggð lán verið vaxandi. Þau voru boðin af bönkunum með hagstæðum kjörum. Þeim fylgir hins vegar áhætta en í sumum tilvikum mun sú áhætta ekki birtast fyrr en eftir þrjú, fjögur eða fimm ár. Auðvitað er áhætta í því fólgin að taka óverðtryggð lán eins og menn hafa verið að vekja athygli á í umræðunni eftir að þessi gusa af óverðtryggðum lánum gekk yfir. Margir hafa líka talað harkalega gegn verðtryggingunni. Það hefur leitt til þess að ýmsir hafa talið betra að óverðtryggð lán væru í boði, en því fylgir sannarlega áhætta.

Í öðru lagi er það þannig að ég hygg að minnsta kosti á einhverju tímabili hafi vextir Íbúðalánasjóðs til húsnæðismála verið heldur hærri en vextir bankanna. Bankarnir hafa verið að fjármagna sig með innlánum. Innlánsvextirnir hafa fram undir þetta verið lágir, eins og menn vita, og þess vegna hafa bankarnir geta boðið betri vaxtakjör. Síðan stendur Íbúðalánasjóður frammi fyrir því að það er verið að greiða mikið upp af lánum. Menn eru að skuldbreyta lánum sínum, færa þau yfir í óverðtryggð lán og fara út á markaðinn til bankanna til að gera það.

Loks er það þannig, sem ég hef verið að vekja athygli á, að Íbúðalánasjóður er í þeirri stöðu vegna lagafyrirmæla að geta ekki boðið skuldugum viðskiptavinum sínum þau úrræði sem bankarnir hafa verið að bjóða. Það stuðlar að því að þeir sem eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð kjósa að færa þau viðskipti sín yfir í bankana. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að það sé fremur þetta sem valdi erfiðleikum (Forseti hringir.) í rekstri Íbúðalánasjóðs um þessar mundir?