140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki síst vegna þess að ég er þingmaður Norðvesturkjördæmis og þekki aðstæður fólks þar sem ég hef verið að velta þessum hlutum fyrir mér varðandi stöðu Íbúðalánasjóðs. Það er rétt hjá hv. þingmanni að mjög stór hluti íbúðalána til landsbyggðarfólks er fjármagnaður í gegnum Íbúðalánasjóð. Þess vegna verður óréttlætið enn þá meira himinhrópandi þegar við sjáum að þeir sem hafa átt þess kost að taka lán í bönkunum fá meiri fyrirgreiðslu með skuldir sínar en þeir sem eru hjá Íbúðalánasjóði. Það verður ekki bara misræmi milli einstaklinga heldur líka milli landsvæða, það er það sem ég er að horfa til.

Ég hugsaði fyrir fjármögnuninni, þetta eru stórar tölur, það er alveg rétt sem komið hefur fram hjá hæstv. velferðarráðherra. Þá er auðvitað tvennt sem kemur til greina, að minnsta kosti við fyrstu sýn. Það er í fyrsta lagi að beint framlag kæmi frá ríkissjóði og þá mættu menn hugsa fyrir því hvernig það væri fjármagnað sérstaklega. Einnig væri hægt að hugsa sér að ríkið gæfi út skuldabréf, víkjandi lán, sem sjóðurinn gæti síðan tekið sem hluta af áhættugrunni sínum, t.d. lán til 40 ára með hóflegum vöxtum. Þá er (Forseti hringir.) það ekki beint ríkisframlag en það mundi hins vegar sannarlega auka ábyrgðir ríkissjóðs.