140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það verður áhugavert að heyra í þessari umræðu hvaða hugmyndir og tillögur stjórnarliðar hafa gagnvart þeirri breytingartillögu sem hv. þingmaður hefur lagt hér fram. Við ræðum hér hagsmuni þúsunda heimila sem ekki hafa fengið viðhlítandi aðstoð.

Eins og við framsóknarmenn sögðum í kjölfar efnahagshrunsins hefur sú sértæka leið sem ríkisstjórnin hefur valið í skuldaúrlausnum heimilanna komið þannig út að þeir sem fóru óvarlegast fá jú einhverja úrlausn sinna mála en fólkið sem fór varlega fyrir hrun — er kannski komið í skuldsetningu sem nemur 105–110% — fær enga aðstoð, ekki nokkra aðstoð, fólkið sem fór varlega í fjárfestingum sínum.

Það er eðlilegt að skuldirnar hafi hækkað í ljósi þess að gjaldmiðillinn hrundi og það er óásættanlegt að horfa upp á það að ríkisstjórnin skuli skila auðu þegar kemur að málefnum (Forseti hringir.) þúsunda skuldugra heimila.