140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þarna er akkúrat grundvallarmunur á nálgun minni á málið og nálgun hv. þingmanns sem minntist ekki einu orði á það hvernig stóru bankarnir þrír ruddust inn á þennan markað án þess að vera búnir að fjármagna starfsemi sína einhver ár fram í tímann. Þeir fóru inn á þennan markað á niðurgreiddum vöxtum til að bola Íbúðalánasjóði út af markaði. Ég man að ungir sjálfstæðismenn ályktuðu um að ekki væri þörf fyrir Íbúðalánasjóð lengur. En ef menn ætla að gera starfsemina félagslega skulu menn búa sig undir að við þurfum að borga mikla fjármuni á hverju ári með starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Fram að hruni þurfti ekki að borga eina krónu til starfsemi Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn hafði eigið fé upp á um það bil 25 milljarða kr. og við mundum, ef við ætlum að fara í þessa stefnubreytingu, þurfa að tala fyrir því í fjárlögum á hverju einasta ári að lappa þurfi upp á ýmis svæði landsins með fjárframlögum úr ríkissjóði. Þá erum við bara komin í mjög leiðinlega umræðu, komin í einhverja byggðastyrki.

Að sjálfsögðu eiga þetta að vera grundvallarmannréttindi. Með því að reka Íbúðalánasjóð með ákveðnum takmörkunum — ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um það — styrkjum við rekstrargrundvöll sjóðsins. Þannig þyrfti ríkissjóður ekki að borga milljarða á ári hverju með slíkum rekstri.

Ég veit ekki hve langt er á milli okkar hv. þingmanns í málflutningi. Hún er nú þingmaður Suðurkjördæmis og við viljum væntanlega að Vík og Klaustur og suðausturhorn landsins hafi aðgang að lánsfjármagni án þess að það sé skilgreint sem eitthvert félagslegt svæði. Ég trúi ekki að hv. þingmaður vilji að við förum þannig inn í umræðuna. Við þurfum því fyrst og fremst að finna lausn og standa vörð um öflugan og vel rekinn Íbúðalánasjóð sem að sjálfsögðu hlaut að verða fyrir einhverju fjárhagslegu tjóni í kjölfar bankahrunsins.