140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Umræðan sem hér hefur skapast um húsnæðismál er umtalsvert umfangsmeiri og dýpri en margir héldu kannski í upphafi þegar málið var lagt fram. Þar kemur margt til. Eitt af því sem er nokkuð augljóst þegar menn fara að skoða frumvarpið, og er tilefni þess að það er lagt fram, er að þá fara menn eðlilega að velta fyrir sér hvort frumvarpið svari nægilega skýrt þeim ábendingum sem komu frá Eftirlitsstofnun EFTA um starfsemi Íbúðalánasjóðs og hvort við séum til að mynda með breytingunum á leigufélögunum, sem sagt að heimila Íbúðalánasjóði að eiga leigufélag, að feta rétta slóð.

Það er líka rétt að nefna hér að síðan eru ágætir hlutir þarna inni, m.a. ákvæði um hæfisskilyrði og hæfisreglur um stjórnendur sem gildi það sama um og hjá öðrum fjármálafyrirtækjum.

Það sem vekur athygli þegar maður fer að skoða málið er að við erum komin að lokum þriðja árs á kjörtímabili ríkisstjórnarinnar og þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um 50 eða 60 úrræði til handa skuldsettum heimilum verður að segjast eins og er að ríkisstjórnin hefur eiginlega aldrei nýtt þau tækifæri sem hún hefur. Hér er til að mynda verið að fjalla um húsnæðismál, um Íbúðalánasjóð. Maður skyldi ætla að eftir þrjú ár væri ríkisstjórnin komin fram með stefnu sem hún vildi leggja fram, heildarstefnu til lengri tíma en væri ekki að bregðast á umdeildan hátt við þeim athugasemdum sem Eftirlitsstofnun EFTA gerir við starfsemi Íbúðalánasjóðs í dag. Með öðrum orðum, frú forseti, hefði ríkisstjórnin átt að koma fram með skýra sýn og stefnu í heildarhúsnæðismálum almennt, þar með talið hvernig hún sér fyrir sér Íbúðalánasjóð, í stað þess að leggja fram lítið mál sem ég veit að mörgum stjórnarliðum finnst sérkennilegt að svo mikil umræða hafi orðið um.

Síðan hefur kristallast hér í umræðunni mismunandi sýn flokka og jafnvel einstakra þingmanna á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Það er líka bæði þörf og nauðsynleg umræða sem er vert að taka. Það er ljóst að til að mynda í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrr á árum voru nokkur átök um það hvert stefna skyldi. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók upp samstarf við Samfylkinguna vorið 2007 var meðal annars haft eftir forustumönnum Sjálfstæðisflokks að það væri líklegra að hægt yrði að fá Samfylkinguna til að gera breytingar á til að mynda Íbúðalánasjóði.

Það er alveg rétt, innan Samfylkingarinnar eru allháværar raddir um að Íbúðalánasjóður eigi ekki að vera til í þessari mynd og þá horfa samfylkingarmenn gjarnan til þess kerfis sem hæstv. forsætisráðherra, sem þá var hæstv. félagsmálaráðherra, kom á með húsnæðisbótakerfi sínu. Hún setti fjölmörg sveitarfélög á landsbyggðinni á hliðina og dældi peningum úr ríkissjóði og sveitarfélögunum í stórum stíl. Það var vonlaust kerfi og þess vegna var brugðist við því á sínum tíma og Íbúðalánasjóður settur á laggirnar. Þar kristallast sú hugmyndafræði sem kom fram í andsvörum hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, við nokkra hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins um nákvæmlega það hvernig við sjáum fyrir okkur starfsemi Íbúðalánasjóðs og hvernig hún verði fjármögnuð.

Horfum til fyrri tíma sem ég held að einstaka þingmenn Samfylkingarinnar hafi horft til og jafnvel hæstv. forsætisráðherra, jafnvel á tímum ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks 2007–2009 þegar hæstv. forsætisráðherra var félagsmálaráðherra eins og menn muna kannski þó að ýmsir samfylkingarþingmenn og jafnvel ráðherrar láti oft í veðri vaka að þeir hafi hvergi verið við stjórnvölinn á þeim tíma þegar hrunið varð. Það er eins og margir samfylkingarþingmenn horfi til þess tíma þegar kerfi hæstv. forsætisráðherra, þáverandi félagsmálaráðherra, var hér við lýði eins og það hafi verið sérstaklega jákvætt og gott. Það var hins vegar afleitt og það reyndist nauðsynlegt að dæla í það opinberum fjármunum, bæði frá sveitarfélögunum og ríkinu.

Þess vegna höfum við framsóknarmenn stutt þá hugmyndafræði að Íbúðalánasjóður gegni veigamiklu hlutverki á húsnæðismarkaði og að það beri að viðhalda því. Við teljum sem sagt eðlilegt að hann starfi á almennum markaði til að fá fé til að geta staðið undir hinum félagslega þætti. Þegar við komum að þessum félagslega þætti þurfum við líka að velta fyrir okkur í hverju hann liggur. Liggur hann kannski aðallega í því að bankarnir meti sum landsvæði sem félagsleg svæði? Er eðlilegt að litið sé á þær byggðir sem eitthvert sérstakt félagslegt kerfi sem þurfi sérstaka opinbera aðstoð til að viðhalda og auðvelda fólki að búa í?

Ég held að þarna muni menn lenda í nokkrum vanda. Það er búið að vera langvarandi og viðurkennt í langan tíma og það er ekkert nýtt að bankarnir hafa horft mjög misjafnlega til landsvæða. Það gerðist ekki eftir hrunið og það gerðist heldur ekki þegar bankarnir ruddust inn á íbúðamarkaðinn, með látum vægast sagt. Ég var á þeim tíma í forsvari fyrir hóp sem var að reyna að byggja upp ferðaþjónustufyrirtæki og þurfti að leita til ýmissa lánastofnana. Það var ótrúlegt viðhorf sem blasti við á þeim tíma. Ég man eftir viðræðum við bankastofnun á höfuðborgarsvæðinu sem skoðaði viðskiptaáætlunina og rekstraráætlanir og það sem eðlilegt er að tilheyri og fannst þær frábærar — sem þær svo sannarlega voru. Þetta er eitt af þeim fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem aldrei hefur farið á hausinn, hefur bara staðið sig býsna vel, staðið fyrir sínu og haldið áfram að vaxa alveg frá því að farið var af stað. Þegar þessir ágætu bankadrengir sem skoðuðu áætlanirnar og leist svo vel á uppgötvuðu staðsetninguna, að fyrirtækið var sem sagt úti á landi, snerist þeim hugur, þeir kipptu að sér höndum og spurðu hvort við, þessir forsvarsmenn, værum ekki með neitt annað sem hægt væri að veðsetja en þessa góðu viðskiptahugmynd og rekstraráætlanir og allt það. Meira að segja enduðu viðræðurnar á spurningunni um hvort við ættum virkilega ekki einhverja kjallaraholu í Reykjavík sem hægt væri að veðsetja.

Þannig var viðhorfið í bankakerfinu þá. Og ég held að viðhorfið í bankakerfinu hafi ekkert breyst. Við sjáum það til að mynda á því hvernig Landsbankinn horfir nú til þess að loka útibúum víða um land. Við höfum rætt það ítarlega í umræðunni um veiðigjöldin að um 75% af útgjöldum ríkisins eru á höfuðborgarsvæðinu en 40% skatttekna þannig að skatttekjurnar koma augljóslega af landinu öllu. Þess vegna skyldi maður ætla að þeir sem lifðu í fjármálageiranum gætu tekið sjálfstæða ákvörðun og metið svæðin án þess að líta á þau sem félagslegt svæði, ýta þeim til hliðar og segja: Við tökum ekki þátt í þessu.

Þess vegna höfum við framsóknarmenn talið mjög mikilvægt að Íbúðalánasjóður sé til. Að okkar mati er mikilvægt að hann sé til í sem óbreyttastri mynd, þ.e. sé á almennum markaði með eðlilegum takmörkunum vegna þess að hann er í samkeppni við aðra. Þannig skapast svigrúm hjá Íbúðalánasjóði til að standa undir hinu félagslega kerfi, ellegar setjum við félagslega kerfið inn á fjárlög á hverju ári eins og komið hefur fram hjá nokkrum þingmönnum.

En þetta er auðvitað miklu flóknara mál. Þess vegna hóf ég ræðu mína á því að velta fyrir mér af hverju í ósköpunum ríkisstjórnin væri eftir þrjú ár ekki komin fram með heildstæða húsnæðisstefnu. Maður hefði mátt búast við að hún kæmi fyrr fram, en hún kemur ekki fram hér, ekki einu sinni ári áður en kjörtímabilinu lýkur.

Við framsóknarmenn teljum að allir landsmenn eigi að eiga möguleika á að búa við öryggi í húsnæðismálum og hafa raunverulegt val um búsetuform. Þá erum við að tala um þá séreignarstefnu sem verið hefur en við viljum líka hafa aðrar leiðir, til að mynda styrkan leigumarkað. Það þarf að auka fjölbreytni búsetuforma með því að endurskoða og styrkja lög um samvinnufélög á sviði húsnæðismála. Það má segja að komið sé til móts við það í þessu frumvarpi og nefndaráliti þar sem fjallað er um, með leyfi forseta, á bls. 3, að meiri hlutinn leggi áherslu á að „Íbúðalánasjóði sé heimilt að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það sem langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis, lán til byggingar eða kaupa leiguíbúða. Meiri hlutinn telur rétt að árétta þann skilning að undir félög sem hafa það að langtímamarkmiði að eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis falla einnig búseturéttarfélög og húsnæðissamvinnufélög, enda sé rekstri þessara félaga þannig háttað að hagnaði af rekstri þeirra sé varið í þágu félagsins en ekki til arðgreiðslna“.

Hér má segja að komið sé til móts við þennan punkt sem ég nefndi í stefnu okkar framsóknarmanna.

Það er fleira sem við höfum fjallað um, nokkuð sem er í stefnu okkar framsóknarmanna og við undrumst að ekki hafi verið brugðist við, hugsanlega í þessu frumvarpi eða öðru formi. Við höfum til að mynda fjallað um að flutningur á milli lánsforma gæti verið auðveldari ef við felldum niður gjaldtöku við skilmálabreytingu og endurfjármögnun, stimpilgjöld og annað. Við erum með tillögu sem ekki hefur fengið brautargengi í þinginu. Við höfum einnig sagt að stjórnvöld ættu að beita sér fyrir því að boðið yrði upp á óverðtryggð húsnæðislán. Í þessu frumvarpi er talað um það að Íbúðalánasjóði sé veitt heimild til að veita óverðtryggð lán til leiguíbúða og að vextir af þeim lánum gætu verið fastir eða breytilegir. Það er sagt í lokin á nefndaráliti meiri hlutans.

Það er rétt að við þessu var brugðist fyrir nokkrum mánuðum en það hefur hins vegar gengið mjög treglega og hægt. Það er ákveðinn galli í kerfinu hjá Íbúðalánasjóði sem er þannig fjármagnaður að þar er uppgreiðsluákvæði sem getur þýtt að sjóðurinn situr uppi með lán sem hann hefur tekið annars staðar og vaxtamun sem hann getur ekki staðið undir. Ég hefði talið eðlilegt að tekið hefði verið heildstætt á þessu í þessu frumvarpi eða öðru sem ríkisstjórnin hefði komið fram með á þessum tíma.

Ef við ætlum að taka heildstæða stefnu þurfum við líka að velta fyrir okkur með hvaða hætti ungt fólk á að geta eignast húsnæði. Í nefndarálitinu telur meiri hlutinn til bóta að lögfest verði að veðbréf Íbúðalánasjóðs geti aðeins numið 80% af matsverði eignar, enda hafi það þau áhrif að kaupendur íbúðarhúsnæðis þurfi að reiða fram sem nemur 20% af kaupverði eignarinnar í eigin fé og þannig takmarkað mikla skuldsetningu kaupenda. Auðvitað er það vegna þess að hér er óheft verðtrygging. Við höfum lagt fram frumvarp um að setja þak á verðtrygginguna til að tryggja að hér brenni eignir ekki upp eins og verið hefur síðustu árin þar sem lán hafa hækkað um 40–50% með tilheyrandi greiðsluerfiðleikum þeirra sem búa við þessar stökkbreyttu aðstæður. Í því sambandi er rétt að gagnrýna ríkisstjórnina og stjórnvöld fyrir að hafa ekki tekið á almennum leiðréttingum á sínum tíma.

Við höfum líka velt fyrir okkur og hvatt til þess að settur yrði upp valfrjáls sparnaður til að tryggja ungu fólki í framtíðinni möguleika á að eignast þessi 20%, m.a. með skattaívilnunum vegna kaupa á íbúð seinna meir eða kaupa á búseturétti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur lagt fram slíkt frumvarp í þinginu en það hefur heldur ekki fengið brautargengi, hún hefur ekki fengið tækifæri til að mæla fyrir því eða koma því til nefndar.

Ég ætlaði að koma inn á fleiri þætti, m.a. breytingartillögu Einars K. Guðfinnssonar og viðbrögð við þeirri stöðu að Íbúðalánasjóður stendur ekki jafnfætis hinu ríkisfjármálafyrirtækinu á íbúðamarkaði, Landsbankanum, en hef nú ekki tíma í það, frú forseti, (Forseti hringir.) og verð því að biðja um að verða settur aftur á mælendaskrá.