140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hérna og hv. þingmaður gerði að umtalsefni má segja að sé einhvers konar viðbragð við þeirri niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, að Íbúðalánasjóður njóti ríkisaðstoðar í formi eigendaábyrgðar, vaxtaniðurgreiðslna, undanþágu frá arðsemiskröfu og greiðslu tekjuskatts. Þetta eru viðurhlutamiklar athugasemdir og það væri fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni hvort hann telji að þetta frumvarp komi í meginatriðum til móts við þær.

Við vitum að uppi hafa verið athugasemdir af mörgum toga við starfsemi Íbúðalánasjóðs í gegnum tíðina. Á seinni árum hafa komið fram ýmsar athugasemdir í svipaða veru, t.d. á árinu 2008. Ef ég man rétt var það að einhverju leyti skilyrt lánveiting norrænu ríkjanna til okkar að á þessu máli yrði tekið. Það er ljóst að það hefur legið nokkuð í loftinu að þessi mál þyrfti að taka upp og ég er sammála hv. þingmanni um að einhvern veginn þarf að gera þetta með heildstæðum hætti þannig að fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs og þeirrar starfsemi sé sem best tryggð til lengri tíma.

Ég hef hins vegar eiginlega meiri áhyggjur af því núna að við erum í dálítið þröngri stöðu með Íbúðalánasjóð. Hann hefur fengið mikil ríkisframlög til að koma til móts við þau töp sem hann varð fyrir. Ég ætla í sjálfu sér ekkert að hafa mörg orð um það. Vandi Íbúðalánasjóðs er sá, jafnvel óháð þessu, að sjóðurinn hefur á margan hátt verið með hendur sínar svo bundnar. Hann hefur til dæmis ekki getað komið til móts við skuldug heimili til jafns við aðrar lánastofnanir. Þær hafa getað boðið fram úrræði sem eru betri en úrræði Íbúðalánasjóðs. Óttast hv. þingmaður þá að þetta atriði geri það að verkum að stuðningur sem hefur verið við Íbúðalánasjóð, almennt held ég þvert á alla flokka, a.m.k. flesta flokka, kunni að rofna (Forseti hringir.) vegna þess að menn horfa til þess að Íbúðalánasjóður hafi ekki þessi tæki til að bregðast við með sama hætti og bankastofnanirnar?