140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar menn gagnrýna almennt útlánatöp Íbúðalánasjóðs og annarra sjóða, eins og Byggðastofnunar, gleyma menn því að þegar nýju bankarnir voru búnir til voru skuldapakkarnir sem voru færðir frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana færðir yfir með gríðarlegum afföllum. Ég man eftir 60–70% sem þessir lánapakkar voru í raun verðlagðir niður sem nýju bankarnir yfirtóku og þar fóru þessar miklu afskriftir fram. Þar með myndaðist mikið rými hjá þessum fjármálastofnunum til að takast á við niðurfærslu á skuldum sem Íbúðalánasjóður hafði ekki sömu möguleika á. Byggðastofnun hafði heldur ekki sömu möguleika.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra vakti athygli á því í gær að sparisjóðirnir höfðu það heldur ekki. Þeir voru endurreistir með allt öðrum hætti. Þeir fengu ákveðna fjárhagslega fyrirgreiðslu. Þar var hins vegar ekki um það að ræða að þeirra gamla lánasafn yrði fært niður og einhver annar tæki á sig kostnaðinn af því, hvorki kröfuhafar né aðrir, vegna þess að hugmyndin var sú að halda lífinu í þessum stofnunum.

Við getum sagt af þessu að samkeppnisstaðan sem verður til við slíkar aðstæður er gríðarlega misjöfn. Auðvitað þarf að taka tillit til þess og menn mega ekki bara horfa á tölurnar sem ríkissjóður reiðir þarna fram til þess að leggja mat á rekstrarárangur þessara sjóða og fjármálafyrirtækja, menn verða að skoða þessi mál heildstætt.

Vegna þess að ég tel að Íbúðalánasjóður hafi hlutverki að gegna hef ég hins vegar áhyggjur af því hvernig staðan er gagnvart honum. Ég hef miklar áhyggjur af því óréttlæti sem blasir við fólki núna sem felst í því að menn fá þrátt fyrir allt meiri skuldaniðurfellingar í bönkunum en hjá Íbúðalánasjóði. Þetta er ekki bara óréttlæti milli einstaklinga, það er líka þannig að lánveitingar Íbúðalánasjóðs til íbúðakaupa hafa verið hlutfallslega miklu meiri úti á landi vegna þess að þar vildu bankarnir síður sinna þessu. Þá myndast enn eitt óréttlætið, óréttlæti með tilliti til búsetu. Sá sem býr á Vestfjörðum (Forseti hringir.) eða einhverju öðru svæði er að þessu leytinu verr settur en sá sem býr á höfuðborgarsvæðinu.