140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[14:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þegar stofna átti Vatnajökulsþjóðgarð held ég að hafi ríkt afskaplega mikil eftirvænting með það meðal flestra ef ekki allra Íslendinga. Ég er nokkuð viss um að það hafi verið mjög góð samstaða um stofnun hans meðal þjóðarinnar og kannski sérstaklega þeirra sem nota þetta svæði. Það var ekki síst vegna þess að hæstv. ráðherrar sem kynntu þetta á þeim tíma riðu um héruð og lofuðu ákveðnum hlutum eins og að ekki yrði skerðing á frelsi manna til að fara um þjóðgarðinn eða nýtingu og öðru slíku.

Ég hef verið að funda um þessi mál og ræða þau á opnum fundum nokkuð víða um landið. Skemmst er frá því að segja að maður heyrir bæði hjá frjálsum útivistarfélögum og sveitarstjórnarmönnum mjög mikla gagnrýni og óánægju með hvernig mál hafa þróast, einkum um að þeir sem taka ákvarðanir um þessi mál hafi oftar en ekki litla þekkingu á málefninu, hafi jafnvel ekki komið á hálendið en séu samt sem áður í sérstökum nefndum sem eiga að fjalla um þessa hluti. Sömuleiðis heyrir maður að ekki sé hlustað, samráð sé á orði en ekki borði og ályktunum til dæmis ekki svarað.

Um daginn var ég á fundi á Húsavík. Þar var upplýst um eitt dæmi en fulltrúar sveitarfélaganna í svæðisráði hafa viljað opna fyrir umferð um Vikrafellsleið. Það er í samræmi við bókun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps sem mælir eindregið með því að Vikrafellsleið verði opin eins og lagt er til í ályktun B um leiðina í skýrslu starfshóps um samgöngur í þjóðgarðinum. Þá er gert ráð fyrir að Vikrafellsleið verði tekin inn í aðalskipulagsuppdrátt Skútustaðahrepps. Stjórn þjóðgarðsins hefur ekki treyst sér til að samþykkja þetta. Eins og þeir sögðu á fundinum er málið er í athugun og niðurstaðan fyrirsjáanleg.

Byggðaráð Norðurþings samþykkti síðasta fimmtudag bókun sem lítið hefur farið fyrir í fjölmiðlum. Þar fór ráðið fram á að framkvæmdastjórn Vatnajökulsþjóðgarðs yrði flutt heim í hérað. Í greinargerð fer ráðið yfir reynsluna af þjóðgarðinum þar sem kemur fram að stjórnsýslan sé flókin og lagskipt og langar boðleiðir til æðstu stjórnar. Sömuleiðis hafi það upplegg sem byggja átti á ekki gengið eftir. Væntingar eru brostnar til þeirrar atvinnulegu uppbyggingar sem boðuð var með stofnun þjóðgarðsins. Það á bæði við um stjórnun og faglega vinnu Vatnajökulsþjóðgarðs sjálfs, sem og afleidda atvinnustarfsemi í heimahéraði uppbyggingar þjóðgarðsins.

Síðan er það svo að þeir áheyrnarfulltrúar sem eru í stjórn mega ekki upplýsa þá aðila sem þeir eru fulltrúar fyrir í stjórn, um hvað gerist á fundum. Ég hef aldrei heyrt um þetta í neinum öðrum félagasamtökum eða stjórnum.

Þess vegna vil ég beina nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra:

1. Hver er ástæðan fyrir því að frjáls félagasamtök á sviði útivistar hafi einungis áheyrnarfulltrúa meðan umhverfisverndarsamtök hafa fullgilda félaga í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs?

2. Hvernig stendur á því að áheyrnarfulltrúi fái ekki að greina frá því sem fram fer á fundi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs til þeirra aðila sem hann er fulltrúi fyrir, sérstaklega í ljósi þess að fundargerðir berast seint og illa og virðast ekki endurspegla það sem gerist á fundum? Ég vek athygli á því að fundurinn í maí er ekki enn kominn á netið.

3. Er stefna ráðuneytisins að draga úr ferðamennsku og útivist Íslendinga á hálendinu? Er unnið að því að fylgja markmiðum 2. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, þar sem segir að auðvelda skuli almenningi aðgengi að þjóðgarðinum?

4. Er verið að setja á stofn nýja stóra ríkisstofnun án vitundar náttúruverndarfélaga, útivistarfélaga og almennings?

5. Hvað er gerast varðandi Hofsjökulsþjóðgarð? Er unnið að heildstæðri mynd af honum? Hver er tilgangurinn með honum?