140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[14:06]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á Vatnajökulsþjóðgarði og framvindu mála þar. Það er rétt sem fram kemur í fyrirspurn hans að sérstaklega góð samstaða hefur verið meðal heimamanna og þeirra sem að málum koma við myndun garðsins og undirbúning hans. Verndaráætlun liggur fyrir frá því í fyrra og komin er nokkur reynsla á hana en áfram hefur verið unnið á grundvelli hennar að samráði, sérstaklega um samgöngumál og samgöngur innan garðsins sem ég vík að síðar í máli mínu.

Í fyrsta lagi varðandi spurningu hv. þingmanns um ástæðuna fyrir því að frjáls félagasamtök á sviði útivistar hafi einungis áheyrnarfulltrúa meðan umhverfisverndarsamtök hafa fullgildan félaga í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Þá er það svo að formaður umhverfisnefndar þáverandi, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, mælti fyrir áliti nefndarinnar 17. mars 2007. Hann mælir þá fyrir breytingu og segir, með leyfi forseta:

„Svo því sé til haga haldið leggur nefndin til ákveðnar breytingar á frumvarpinu en margar þeirra eru tæknilegar. Nefndin var einnig einhuga um að útivistarsamtök, sem eru samtök eins og Ferðafélag Íslands, 4x4 og ýmis ferðafélög um landið, hafi beina aðkomu að stjórn garðsins. Því leggur nefndin til að í svæðisráðunum, sem eru fimm, verði einnig fulltrúi útivistarsamtaka og að í sjö manna stjórn verði útivistarsamtökin með áheyrnarfulltrúa. Á sama hátt hafi útivistarsamtökin kærurétt þegar mál koma upp eins og umhverfissamtök og aðrir hagsmunaaðilar.“

Hv. þingmaður ætti því að kannast við tilvist nákvæmlega þessa ákvæðis í lögunum sem stafar frá honum sjálfum.

Varðandi fundargerðir og athugasemdir um að þær berist ekki nógu títt, kallaði ég sérstaklega eftir upplýsingum um það hjá stjórn garðsins. Það er rétt að ekki hefur gengið sem skyldi að ganga frá fundargerðum, en stjórnin hyggst bæta úr því. Það er auðvitað fagnaðarefni að hv. þingmaður lýsir sérstökum áhuga á þeim málum og stjórnin hefur verið að vinna sérstaklega að siðareglum til þess að tryggja trúnað milli stjórnarmanna og áheyrnarfulltrúa. Áheyrnarfulltrúi Samút var einn af þeim þremur sem tóku að sér að vinna grunn að siðareglunum og hefur ekki gert breytingartillögu við þá grein sem væntanlega er verið að vísa til í fyrirspurninni, þ.e. að stjórnarmenn virði trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á stjórnarfundum. Ég geri ráð fyrir að það sé það sem hv. þingmaður er að vísa til og gerir athugasemd við.

Varðandi hvort það sé stefna ráðuneytisins að draga úr ferðamennsku á hálendinu ætla ég að horfa fram hjá háðstóninum í þeirri spurningu og gera ráð fyrir því að hún sé á málefnalegum grunni. Eins og hv. þingmaður veit væntanlega er unnið markvisst að þeim markmiðum þjóðgarðsins að auðvelda almenningi aðgengi að þjóðgarðinum, enda er það annað meginmarkmið með tilvist þjóðgarðsins, annars vegar náttúruvernd og hins vegar að tryggja í ákvörðunum og framkvæmd að það sé einstök upplifun að heimsækja og dvelja í Vatnajökulsþjóðgarði sem gestur. Við vinnum áfram að því í samræmi við stjórnunar- og verndaráætlun.

Hv. þingmaður dvaldi sérstaklega við eina tiltekna leið sem ég ætla að geta um í svari mínu.

Stjórnunar- og verndaráætlun var samþykkt 28. febrúar 2011. Fjöldinn allur af athugasemdum barst við drögin að áætluninni og lutu flestar að samgöngumálum. Samráðsferlið var kynnt á fundi 13. apríl 2011. Í framhaldi af þeim fjöldamörgu athugasemdum sem bárust beindi ég þeirri ósk til stjórnar þjóðgarðsins að settur yrði sérstakur samráðshópur í gang til að skoða samgöngumálin. Þessi starfshópur hittist á ellefu vinnufundum á tímabilinu 25. maí til 21. nóvember 2011 og hagsmunaaðilar höfðu tækifæri til að koma að athugasemdum til hópsins. Það var rík samstaða í hópnum sem var settur saman af fulltrúum mjög ólíkra sjónarmiða. Stjórnin fór yfir 25 mál sem samráðshópurinn tók sérstaklega til umfjöllunar. Í 22 tilvikum var stjórnin samhljóma samgönguhópnum, en út af standa þrjú mál. Má segja að það sé þessi tvö, Vikrafellsleið annars vegar og Víkurskarð hins vegar.

Þar má sjá sérbókanir áheyrnarfulltrúa útivistarsamtaka sem vildi hafa þessar leiðir opnar á meðan gerð væri heildstæð rannsókn á þolmörkum, náttúruverndargildi og útivistargildi þessara tveggja leiða sérstaklega. Sú vinna mun væntanlega (Forseti hringir.) hefjast með sumrinu.