140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[14:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé tvennt sem geri þjóðgarð að þjóðgarði, í fyrsta lagi stórkostleg náttúra, síðan er það fólkið. Þegar við erum að tala um mikilvægi garðsins og þökkum hæstv. umhverfisráðherra fyrir það sem hefur gerst undanfarið í málefnum Vatnajökulsþjóðgarðs, held ég að sé mjög mikilvægt að hafa það í huga (Gripið fram í.) varðandi stækkun á Vatnajökulsþjóðgarðs á þessu kjörtímabili, að byrja á því að þakka heimamönnum fyrir það skref sem þeir tóku, að vilja stækka Vatnajökulsþjóðgarð.

Það sem ég vil leggja áherslu á er að Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir svæði þar sem eru byggðarlög sem hafa verið í mikilli vörn og átt í mikilli varnarbaráttu. Heimamenn þar hafa horft til þjóðgarðsins ekki bara út frá þeirri miklu náttúruperlu sem hann er heldur líka út frá stuðningi við viðkomandi byggðarlög um uppbyggingu ferðaþjónustu og að byggja upp ný störf á viðkomandi svæði.

Þess vegna voru það og eru enn mjög mikil vonbrigði að tekin var ákvörðun um að staðsetja höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs í Reykjavík. Það er staðreynd. Við getum ekkert horft fram hjá því. Það voru mikil vonbrigði að sú ákvörðun var tekin.

Menn hafa hins vegar verið að vinna sig áfram. Ég vil gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hún hyggst leggja upp málið í tengslum við fjárlög í haust. Kallað er eftir viðbótarfjármagni til þess að ráða fleira fast starfsfólk til að sinna ýmsum þeim verkefnum sem hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir fór m.a. í gegnum í ræðu sinni. Það er kallað eftir því hvort hægt verði að tryggja fjármagn í fyrsta áfanga að þekkingarsetri á Kirkjubæjarklaustri.

Það hefur líka komið fram að unnið er að (Forseti hringir.) nýrri verndaráætlun og einnig skýrari reglum varðandi samgöngur og þar er þróun á málum. Það væri áhugavert ef ráðherrann gæti komið inn á það.