140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[14:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir góða umræðu. Sérstaklega vil ég þakka fyrir ræður frá hv. þm. Baldvini Jónssyni og Unni Brá Konráðsdóttur. Þar talar fólk af þekkingu. Ég held að sé afskaplega mikilvægt að það fólk sem þekkir hálendið komið að ákvörðunum.

Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað síðustu spurningunum, hvort verið sé að stofna nýja ríkisstofnun og varðandi Hofsjökulsþjóðgarð. Sömuleiðis hefur hæstv. ráðherra ekki svarað af hverju áheyrnarfulltrúar fá ekki að greina frá því sem kemur fram á fundum stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vekja athygli á mínum þætti í þessu máli. Ég vona að hæstv. ráðherra geri meira af því, en þetta var í tíð hæstv. ráðherra Sigríðar Önnu Þórðardóttur. Hæstv. ráðherra bendir á það að þarna lögðum við til að þessi félög fengju beina aðild að þjóðgarðinum. Það er augljóslega ekki nóg.

Úr því ég ræð (Gripið fram í.) þessu, virðulegi forseti, en ég gat ekki skilið annað á ræðu hæstv. ráðherra af því að það var svar hennar við spurningunni, hef ég tekið ákvörðun um að þeir fái beina aðild og verði fullgildir aðilar í stjórninni. Ég mun leggja fram mína aðstoð til að klára það, bæði að semja það og ganga frá í gegnum þingið.

Virðulegi forseti. Það er mjög hættulegt ef við erum komin á þann stað að við komum í veg fyrir að fólk geti nýtt þjóðgarðinn. Það er hvorki réttlátt né skynsamlegt að flokka þá Íslendinga sem hafa notið hálendisins í hópa og segja að sumir hópar megi ekki nýta sér hálendið. Það var alls ekki hugmyndin þegar við fórum af stað með þetta. Reyndar hafði maður ekki hugmyndaflug í það.

Ég held líka að við höfum gert mistök að hafa ekki stjórnsýsluna meira hjá svæðisráðunum. Það er augljóst að reynslan hefur ekki verið góð af þeirri miðstýringu sem nú er. (Forseti hringir.) Ég legg til að við breytum því og lítum sérstaklega á þá ályktun sem kom að norðan (Forseti hringir.) og ég vísaði í áðan.