140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér Íbúðalánasjóð sem hefur farið mjög illa út úr bankahruninu. Ef ég man rétt hafa framlög til hans úr opinberum sjóði verið 33 milljarðar. Okkur vantar, eftir því sem ég best veit, 12 milljarða í viðbót til að uppfylla lögbundin eiginfjárhlutföll. Þetta eru verulegar upphæðir. Þetta eru rúmlega fimm Vaðlaheiðargöng og miklu meira en rekstrarkostnaðurinn á Landspítalanum. Ætli þetta sé ekki nokkuð svipað og rekstrarkostnaðurinn á öllum heilbrigðisstofnunum á landinu á einu ári. Samt sem áður erum við í þeirri stöðu að þeir sem eru með lán hjá sjóðnum hafa fengið minni leiðréttingu en aðrir.

Þetta er vandi sem erfitt er að eiga við. Nú er hugmyndin sú að fara af stað með risaleigufélag á vegum ríkisins. Áhrifin eru strax komin fram. Það er verið að segja upp leigusamningum og öðru slíku vegna þess að það lítur út fyrir að leiga verði lægri hjá þessu stóra ríkisfélagi sem mun auka á vanda Íbúðalánasjóðs. Þeir sem eru með lán hjá sjóðnum og eru að leigja út geta þá ekki staðið skil á leigunni vegna þess að Íbúðalánasjóður undirbýður viðskiptavini sína.

Við verðum að nota tækifærið núna og skilgreina hvert hlutverk Íbúðalánasjóðs á að vera þannig að við lendum ekki í svona stöðu aftur. Hvert á hlutverk Íbúðalánasjóðs að vera? Það er vont ef hann er orðinn sá sjóður sem veitir verstu þjónustuna þegar kemur að skuldaniðurfærslu og öðru slíku. Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái það fyrir sér. Hvert á hlutverk Íbúðalánasjóðs að vera?