140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að staldra áfram við þann punkt sem er þjónusta við hinar dreifðu byggðir og aðgengi fólks þar að lánsfjármagni. Á undangengnum árum hafa sparisjóðirnir í landinu haft uppi ágætt samstarf við Íbúðalánasjóð um að fjármagna íbúðakaup á starfssvæðum sínum og hefur það hjálpað fólki allverulega á þeim stöðum, fólki sem annars hefði ekki haft tök á því að fjármagna íbúðakaup sín vegna þess að það lánsfjármagn er ekki til staðar hjá stóru bönkunum þremur og ekki vilji til að standa í slíku.

Nú höfum við því miður heyrt dapurlegar fréttir af endurreisn sparisjóðakerfisins í landinu. Þá veltir maður fyrir sér hvort það muni ekki óhjákvæmilega bitna á hinum dreifðu byggðum ef við horfum upp á það að sparisjóðirnir dragist enn frekar saman en nú er. Er það ekki mikið áfall fyrir landsbyggðina og þurfum við þá ekki að taka höndum saman á þingi og styðja við það fyrirkomulag sem sparisjóðakerfið er? Það hefur verið gríðarlega mikilvægt fyrir viðkomandi byggðarlög og samstarf Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna hefur verið með miklum ágætum. Um leið og verið er að skerða af hálfu stóru bankanna þriggja þjónustu við íbúa á landsbyggðinni getum við ekki horft upp á það að hornsteinninn í héraði sem sparisjóðirnir eru drabbist niður í leiðinni.

Af hverju er ég að blanda sparisjóðunum inn í þessa umræðu? Vegna þess að sparisjóðirnir hafa átt mjög gott samstarf við Íbúðalánasjóð um að hjálpa byggðarlögum í erfiðleikum, þ.e. íbúum þeirra, við að fjárfesta í íbúðarhúsnæði. Þess vegna finnst mér rétt að hv. þingmaður fari aðeins inn á þennan þátt málsins í sínu seinna andsvari.