140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur sjaldan þurft að hvetja mig mjög mikið til að taka þátt í umræðu um sparisjóði. Ég hef haldið margar ræðurnar úr þessum ræðustóli um sparisjóðina og gildi þeirra. Við þekkjum auðvitað alla hörmungarsöguna í kringum sparisjóðina og þar hefur mér fundist umræðan vera mjög óvægin í garð sparisjóðanna, sparisjóðakerfisins og sparisjóðafyrirkomulagsins. Þar hefur kannski gilt hið fornkveðna að finni maður fölnað laufblað eitt þá fordæmir hann skóginn. Mér hefur stundum fundist að menn séu að reyna að slæma höggi á alla sparisjóði og sparisjóðakerfið vegna þess hversu illa fór í einhverjum tilteknum sparisjóði á forsendum sem við höfum miklar efasemdir um.

Ég er þeirrar skoðunar að nú sé ögurstund í sparisjóðakerfinu. Við getum staðið í þeim sporum núna þar sem við tökum um það ákvarðanir, stjórnvöld eru að taka um það ákvarðanir, hvort hér verði yfir höfuð sparisjóðir í landinu. Ég teldi það hrikalegt skref aftur á bak ef sparisjóðakerfið legðist af. Þá mundi aukast enn meira sú fákeppni sem er þegar til staðar í fjármálakerfinu og það væri til lengri tíma ákaflega óhollt.

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin eigi að lýsa því yfir varðandi eignarhlut sinn í fimm sparisjóðum á landsbyggðinni að ekki komi til greina að selja stofnfé ríkisins í þessum sparisjóðum til annarra fjármálastofnana, það eigi að tryggja að sparisjóðakerfið geti lifað, auðvitað í breyttri mynd með verulegri uppstokkun, samþjöppun og sameiningu sparisjóðanna, en það eigi hins vegar að koma í veg fyrir að fjármálastofnanir, hvort sem þær heita Íslandsbanki, Landsbanki eða Arion, eignist sparisjóðina því að þá er sagan öll. Það væri hörmulegt. Þessar stóru fjármálastofnanir munar sjálfsagt ekkert um að kaupa upp svona litlar einingar eins og sparisjóðirnir eru, örugglega í þeim tilgangi að loka þeim vegna þess að í því fælist hagræðingin frá þeirra sjónarmiði. En (Forseti hringir.) þetta eru mín grundvallarviðhorf í þessum efnum.