140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór í ræðu sinni aðeins yfir breytingartillögu og viðbrögð stjórnarþingmanna við hugmyndafræðinni. Það skortir kannski á að í salnum er enginn stjórnarliði til að bregðast beint við, hér er hvorki hæstv. velferðarráðherra né hæstv. fjármálaráðherra sem hefði auðvitað verið eðlilegt að væru viðstaddir einhvern hluta af þessari umræðu.

Ein af þeim rökum sem hv. þingmaður setur fram í greinargerð sinni með frumvarpinu eru, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess að Landsbankinn hf. og Íbúðalánasjóður eru lánastofnanir í eigu íslenska ríkisins telja flutningsmenn að samþykkt frumvarpsins sé eðlileg svo að skref verði stigin í jafnræðisátt hvað skuldara varðar. Þá sjá flutningsmenn frumvarpsins fyrir sér að samþykkt þess kunni að leiða til þess að setja aukinn þrýsting á að aðrar fjármálastofnanir samræmi verklag sitt þegar kemur að úrlausn skuldavanda heimilanna.“

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann líti svo á að hér sé tækifæri fyrir ríkisstjórnina — og biðst ég afsökunar á að ég skuli spyrja hann en ekki þá sem ég nefndi til sögunnar og skortir í salinn — til að setja fordæmi og sýna með stefnu Íbúðalánasjóðs hvernig ríkið vill að komið sé fram við skuldara í landinu þannig að aðrar stofnanir sem hafa meðal annars óskað eftir því að fá að samræma viðbrögð sín við gengistryggðu lánunum, sem hefur tafið viðbrögðin allverulega, mundu fylgja í kjölfarið. Er þetta ekki eitt af þeim tækjum sem ríkisstjórnin gæti nýtt til að sýna vilja sinn í verki að koma til móts við skuldug heimili og skuldara í landinu?