140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjárlaganefnd fjallaði um þetta mál á sínum tíma fyrir 2. umr. málsins eftir að mælt var fyrir því hér á þingi. Hún fjallaði allítarlega um málið, kallaði til sín ýmsa gesti og umsagnaraðila og fór vandlega yfir það allt. Það er mat fjárlaganefndar, eins og fram kemur í nefndarálitinu, að ákveðin fjárhagsleg áhætta sé fólgin í verkefni af þessari stærðargráðu. Það blasir við. En sú áhætta er innan þeirra marka sem fjárlaganefnd telur verjandi að gera og þess vegna leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að þetta mál verði samþykkt óbreytt.

Ég vek athygli á því að þetta mál var samþykkt við 2. umr. í gær með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða og blæs því á öll slík rök að hér sé um einhver gæluverkefni einstakra ráðherra eða þingmanna að ræða. Þverpólitísk samstaða var um málið, þingmenn úr öllum flokkum nema Hreyfingunni studdu það, þingmenn úr öllum kjördæmum. Þau rök standast því ekki, sem hv. þingmaður hélt hér fram, að um einhvers konar gæluverkefni væri að ræða.