140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:38]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Nú svaraði hv. þingmaður ekki spurningum mínum. Telur hann eðlilegt að lögum um ríkisábyrgðir, eða öðrum lögum sem til eru í landinu, sé kippt úr sambandi eða þeim vikið til hliðar þegar kemur að afgreiðslu mála sem hugnast ákveðnum þingmönnum eða ráðherrum? Það eru lög um ríkisábyrgðir vegna einhvers, vegna þess að ríkisábyrgðir fóru gjörsamlega úr böndunum og hafa gert áratugum saman og munu gera samkvæmt áliti Ríkisábyrgðasjóðs með þessa lánveitingu. Það kemur skýrt fram að það er útilokað mál að Vaðlaheiðargöng ehf. muni geta endurfjármagnað lánið árið 2018. Þetta vita menn, en samt finnst mönnum þetta eðlileg vinnubrögð.

Hver er afstaða hv. þingmanns, varaformanns fjárlaganefndar, til afgreiðslu fjárveitinga úr ríkissjóði með þessum hætti? Ég held að það sé rétt að það komi hér skýrt fram þar sem um er að ræða varaformann fjárlaganefndar og þar sem um er að ræða útgjöld ríkissjóðs sem nema hundruðum milljarða meðal annars vegna óábyrgrar stjórnunar á landinu, stjórnunar hjá fjármálaráðuneytinu undanfarin ár í aðdraganda hrunsins og eftir það. Það er til dæmis verið að hafa varnaðarorð rannsóknarnefndar Alþingis að engu. Það er verið að hafa ályktun Alþingis, sem var samþykkt 63:0, um vandaðri stjórnsýslu og vandaðri afgreiðslu mála, að engu. Er þingmaðurinn sammála því að þetta séu bara einhvers konar aukaatriði og að göng í einhverju ákveðnu kjördæmi úti á landi séu þess verð að ryðja öllum þessum sjónarmiðum til hliðar?