140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vill nú þannig til að samgöngur alls staðar á landinu eru í einhverjum kjördæmum enn sem komið er og skiptir nú ekki máli í þessu tilfelli hvort það er í Norðuraustur-, Norðvestur-, Suðurkjördæmi eða Suðvesturkjördæmi, alls staðar eru samgöngur hvort sem er.

Hér er ekki verið að ganga á svig við lög. Hér er verið að gera lagabreytingu. Það er ekki verið að ganga á svig við lög með þeim hætti. Hér er ekki verið að kippa lögum úr sambandi. Það er verið að gera lagabreytingu. Ekki er verið að fella niður lög eða ganga á svig við þau með neinum hætti.

Vilji minn og skoðun í málum af þessu tagi hlýtur að endurspeglast í stuðningi mínum við það mál sem hér er. Ég er framsögumaður í því og mælist til þess að málið verði samþykkt óbreytt. Eins og ég sagði í fyrri andsvörum og kemur fram í nefndaráliti er auðvitað áhætta fólgin í verkefni af þessari stærðargráðu, þó það nú væri. Ekki er hægt að fullvissa sig langt inn í framtíðina eins og reyndar hv. þingmaður gerir. Í útreikningum sínum ætlar hann að útiloka að mögulegt sé fyrir fyrirtækið að fjármagna sig eftir tiltekinn tíma. Ég er því ósammála og okkur greinir á um það, mig og hv. þingmann. Þannig verður það bara að vera. Ég hef trú á þessu verkefni, að það muni standa undir sér, að það muni greiða sig sjálft á endanum og að ríkissjóður verði ekki fyrir fjárhagslegu tapi hvað þetta varðar.

Hv. þingmaður hélt því fram í ræðu um þetta mál hér á dögunum að neikvæð þjóðhagsleg áhrif væru af framkvæmdinni. Það væri þá í fyrsta skipti, virðulegur forseti, sem mínus þjóðhagsleg hagkvæmni væri af vegsamgöngum og vegbótum á Íslandi. Þó ekki væri nema þess vegna mundi ég vilja láta reyna á þetta verkefni.