140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki orða bundist að koma hér upp í andsvar við hv. þingmann og kannski eingöngu til að spyrja hann þeirrar einföldu spurningar: Af hverju í ósköpunum flytur hv. þingmaður ræðu sína gegn þessu verki með jafnmiklu fleipri og vitleysu, liggur við að ég segi, í fullyrðingum þar sem hann er að rökstyðja fyrir sjálfum sér að vera á móti þessu verki? Ég held, virðulegi forseti, ég hafi aldrei áður gefið ræðumönnum einkunnir. En ég held að aldrei hafi verið flutt ræða hér á hinu háa Alþingi þar sem jafnmikið af útúrsnúningum og rangfærslum er sett fram.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að ég ber virðingu fyrir þeirri skoðun þingmannsins að vera á móti þessu verki alveg eins og ég vona að hann beri virðingu fyrir því að ég er hlynntur verkinu. En ræðan var uppfull af rangfærslum, til dæmis að Norðfjarðargöng stytti leiðina um 16 kílómetra. Hvaðan hefur hv. þingmaður þær tölur? Þetta er bull. Þó að Norðfjarðargöng séu mjög brýn eru menn að tala um þetta á allt annan hátt. Stytting um 16 kílómetra já, og að það taki átta mínútur að keyra. Er hv. þingmaður virkilega að bjóða mönnum upp á það að átta mínútur taki að keyra Víkurskarðið að vetri til í hálku og bandvitlausu veðri? Er hv. þingmaður virkilega að halda þessu fram og segja það við okkur íbúa þessa svæðis sem þarna eiga leið um?

Það er líka rangt, virðulegi forseti, að Vaðlaheiðargöng hafi einhvern tímann verið inni í samgönguáætlun. Þau hafa ekki verið þar. Það hefur alltaf verið talað um það, frá því farið var að tala um þau, að taka ætti þau á þennan hátt.

Hv. þingmaður ræddi líka um meðalumferð og gerði lítið úr henni. Virðulegi forseti. Ég er þess fullviss að mesta umferðaraukningin um Vaðlaheiðargöng verður einmitt að vetri til vegna þess að margir íbúar þessa svæðis veigra sér við að fara þarna um í vetrarveðrum. Svo tínir hv. þingmaður meira til eins og mettun í bílaeign og fleira og fleira (Gripið fram í.) og að ekki hafi verið tekið tillit til minnkunar umferðar. Þetta er ein af vitleysunum sem komu frá hv. þingmanni. Það hefur verið tekið tillit til þessa. (Forseti hringir.) Spurning mín er sú: Hvers vegna í ósköpunum fer þingmaðurinn með jafnmikla vitleysu (Forseti hringir.) um eitt mál?

(Forseti (SIJ): Forseti vill biðja þingmenn að gæta hófs í orðavali.)