140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég ætla ekki að rekja í þessari stuttu ræðu málið eins og það liggur fyrir, það hefur verið gert áður, án árangurs vil ég segja. Ég vil líka þakka hv. þm. Þór Saari fyrir að gera enn eina tilraun til þess að setja málið í samhengi. Atkvæðagreiðsla fór fram um þetta mál að lokinni 2. umr. í gær. Ég tel í samræmi við aðra afstöðu mína að mér og öðrum þingmönnum beri að virða þann meirihlutavilja sem þar kom fram. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Birni Val Gíslasyni — sem er ekki staddur hér þótt hann sé framsögumaður málsins og kemur nokkuð á óvart, forseti — að fátt hefur komið fram á milli umræðna sem gefur tilefni til langra ræðuhalda um nýjungar í málinu.

Ég vil í upphafi líka taka fram að vegna þess að ég þarf að fara frá í rúman hálftíma kann að vera að ég geti ekki verið við atkvæðagreiðslu en mundi greiða atkvæði og greiði atkvæði, ef ég næ atkvæðagreiðslunni, á sama hátt og áður. Ekkert það hefur komið fram sem getur breytt þeirri afstöðu minni að mér beri sem alþingismanni að greiða atkvæði gegn þessu máli. Ég geri það ekki ókeypis. Ég geri það vegna þess að öll mín athugun og öll mín sannfæring í því er sú að þetta mál eigi ekki að samþykkja hér á þingi, heldur eigi að undirbúa það betur, reyna að ná um það einhvers konar sáttum og samkomulagi sem ekki hefur verið reynt frá upphafi málsins. Við hver mistök, við hvert strand sem málið hefur lent í, hefur verið farið með það aftur á upphafsreit og reynt á ný að koma því fram án þess að viðurkenna mistökin, án þess að reyna að skapa meiri hluta um málið með sæmilegum hætti, með því til dæmis að segja að þótt málið sé komið sem það er komið þá séu aðrar ástæður sem valdi því að best sé að fara með það fram og skilgreina um leið hvaða mistök hafi verið gerð til að við lendum ekki í þeim aftur.

Það hefur verið myndað einhvers konar bandalag svokallaðra heimamanna, þ.e. kjördæmisþingmanna, um málið og farið með það fram aftur og aftur með miklu stolti og reigingi án þess að viðurkenna mistök sín. Þess vegna skapar það okkur meiri vanda en málið sjálft gefur í raun og veru tilefni til.

Nýjasta dæmið er afgreiðsla síðustu daga þar sem tvö öfl eru að verki, annars vegar það bandalag sem kjördæmisþingmennirnir standa fyrir. Það kjördæmi hefur óvenjumikil áhrif á þinginu miðað við önnur kjördæmi í ýmsum málum. Það er auðvitað ágætt fyrir þá sem þar búa skulum við vænta. En það hefur líka verið sett upp sem stjórnarfrumvarp og gefið í skyn og meira en það, nú ætla ég að tala varlega, að það séu hálfgerð brigð hjá stjórnarþingmönnum að styðja ekki málið, að þegja ekki í umræðunum um það, við þann málstað sem þeir hafa tekið þátt í með öðrum stjórnarþingmönnum hér á þinginu, að verja ríkisstjórnina og sækja fram fyrir hana í þeim miklu og þörfu málum og við þær miklu og erfiðu aðstæður sem við búum við. Þetta hefur reynst mér nokkuð þungt að þurfa að vera í þessari stöðu, að þurfa að eiga við þessar aðstæður.

Það sem ég ætla að nefna hér í framhaldi af þessu, til að það geymist í þingsögunni, er það sem gerðist við lok 2. umr. í gær. Öllum á óvart gerðist það að forseti tilkynnti að nú færi fram atkvæðagreiðsla um það hvort málinu ætti að vísa aftur til nefndar án þess að þess hefði verið óskað opinberlega. Framsögumaður málsins, hinn háttvirti þingmaður sem við vitum hver er, hafði óskað eftir því við forseta að það yrði gert. Það kom síðan upp að þetta var gert til að ekki gæti farið fram atkvæðagreiðsla um þá ósk sem raunverulega hafði verið borin fram hér í salnum, að málið færi til umhverfis- og samgöngunefndar, annaðhvort milli umræðna eða leitað yrði álits hjá þeirri nefnd. Þess vegna var þetta litla leikrit sett upp hér í gær, að málinu var vísað til fjárlaganefndar sem fjallaði um það í einar tíu mínútur að ég held, en það getur hv. framsögumaður nefndarinnar auðvitað leiðrétt, og komst að þeirri niðurstöðu að ekkert nýtt hefði komið fram. Framsögumaðurinn treysti sumsé ekki betur þeim meiri hluta sem hafði fengist fyrir málinu hér í salnum en svo að hann treysti honum ekki til þess að fella tillögu um það að málinu yrði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar, heldur varð að skilgreina það á hinn veginn með þingtæknilegum hætti að málinu yrði vísað til fjárlaganefndar og síðan var gert sérstakt hlé á umræðum í þingsal á Alþingi Íslendinga til þess að framsögumaðurinn gæti haldið fund í hv. fjárlaganefnd, (Gripið fram í: Hærra.) hinni háu fjárlaganefnd og afgreitt málið þar út þannig að leikritið gæti haldið áfram.

Forseti. Nú er ég einn af aðdáendum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar og hef gaman af að standa með honum í hörðum slag, en það er ekki alltaf gaman að tefla á móti mönnum sem í handbolta mundu sagðir vera brjóta af sér þegar dómarinn sér ekki til. Þetta var nú svona eitt af því sem ég ætlaði að segja hérna.

Ég ætla að fara hins vegar fljótt yfir tvö mál sem mér finnst standa eftir að samþykktu þessu frumvarpi hér á þinginu á eftir sem ég geri ráð fyrir að verði. Annars vegar það að þetta mál kemur okkur í nýjar stellingar, kemur okkur í nýja stöðu gagnvart ríkisábyrgð. Ég minni enn á það að ríkisábyrgðarlögin frá 1997 voru samþykkt eftir nefndarstarf vísra manna, fjögurra ára nefndarstarf, þar sem gefin var út skýrsla sem að sínu leyti var áfellisdómur yfir þeim starfsháttum sem sú ríkisstjórn og þá einkum þær sem áður höfðu setið mjög margar í áratugi höfðu viðhaft gagnvart veitingu ríkisábyrgðar. Og það að leggja í að gera undantekningar frá ríkisábyrgðarlögunum 1997 þarf frekari skýringar en hér hafa verið veittar. Því miður stóðu að þeim breytingum þeir sem síst skyldi.

Ég er hræddur um að þeir tímar komi að þingið og þeir sem stóðu fyrir þeim breytingum og þeir sem greiddu þeim atkvæði þurfi að standa reikningsskil þeirra gerða, vegna þess að hér eftir er algjörlega óljóst hvaða reglur í raun og veru gilda um ríkisábyrgð til verkefna eða til fyrirtækja, við skulum orða það kurteislega, sem fara í verkefni. Þetta hefur meðal annars verið skýrt þannig að ríkið sé í rauninni að taka ábyrgð á sjálfu sér, það sé þess vegna óeðlilegt að ríkið geri þær kröfur til sjálfs sín sem skilyrðin í ríkisábyrgðarlögunum ganga út á. Ef það er svo þá eru það auðvitað mjög sérkennilegar bókhaldsaðferðir. Ég endurtek: Fyrir þeim standa þá þeir sem síst skyldi. Það tekur mig sárt.

Í staðinn hefði verið eðlilegra, ef ríkið er að taka ábyrgð á sjálfu sér, að ríkið gerði þetta sjálft, að ríkið viðurkenni að þetta sé ríkisframkvæmd sem ríkið á að standa fyrir og ríkið á að borga í. Það eru nokkrar aðferðir til þess en þetta er einhver sú allra versta. Ein hefði verið sú sem hér var til umræðu að ríkið legði fram meira eigið fé. Það var ein gagnrýnin í merkilegri skýrslu að eigið féð væri allt of lítið, það er eitt af þeim skilyrðum sem fleygt er út í þessu frumvarpi. Síðan hefði það fyrirtæki sem þá var stöndugra en nú er og verður eftir þetta frumvarp getað reynt að afla sér lánsfjármagns á markaði og látið þannig reyna á þessa viðskiptahugmynd. Því að þetta er kynnt sem viðskiptahugmynd með öllum þeim umbúnaði sem í kringum hana er þar sem reynir á viðskiptahugmyndir, nefnilega við fjármögnun á lánsfjármarkaði og síðan náttúrlega í rekstri.

Annað sem hér hefur oft verið rætt og ég tel ástæðu til að nefna, vegna þess að ég er í samgöngunefnd og hef farið í gegnum þetta mál sem samgöngunefndarmaður, er að þetta skapar einhvers konar nýjan framkvæmdaflokk. Við þekkjum einkaframkvæmd og við þekkjum ríkisframkvæmd, opinberar framkvæmdir, í samgöngumálum. Hér er komin framkvæmd sem er hvorugt. Hún var kynnt sem einkaframkvæmd. Deila má um einkaþáttinn í henni en hún var kynnt sem slík. Forsendurnar voru þær í lögunum 2010, í áliti samgöngunefndar sem þá hét vorið 2010, að hér væri um einkaframkvæmd að ræða sem ætti að standa þannig undir sér að ríkið kæmi hvergi nálægt henni. Ríkið þyrfti ekki að taka neina áhættu, það væri engin ábyrgð og ekki neitt nema það að gerður væri samningur við fyrirtækið samsvarandi Hvalfjarðargangasamningnum. Þetta hefur svo breyst á þann veg að forgöngumenn málsins þora varla að nefna það. Til dæmis hefur hv. framsögumaður fjárlaganefndar vikið sér undan þeim spurningum um hvers eðlis þessi framkvæmd er vegna þess að hann veit það ekki.

Þetta er sumsé þriðja leið. Ég er ekki að segja að hún sé óhugsandi. Það er alveg hugsanlegt að hafa þessa þriðju leið, að hafa það þannig að þegar héraðshöfðingjar á sterku öflugu svæði fara í broddi fylkingar og hafa búið til samstöðu á svæðinu um það að menn ætli að taka þátt í framkvæmdinni með því að borga veggjöld, skuggagjöld eða hvað annað, þá geti það flokkast með einhverjum hætti sem framkvæmd hér á þinginu. Þetta var ekki gert, heldur er málinu ýtt áfram með látum. Núna stöndum við uppi með það að við vitum ekki hvernig við eigum að svara næstu spurningum í þessu máli því að þær koma auðvitað upp. Við vitum ekki hvernig við ætlum að snúa okkur í grundvallaratriðum í þessu.

Ég talaði um öflug héruð þar sem er mikil umferð þar sem væri hægt með einhverjum hætti að taka þátt í framkvæmdinni á móti ríkinu. En hvað þá um þau héruð sem ekki eru öflug, þar sem er lítil umferð? Þá erum við komin með það sem við höfum oft talað um, a.m.k. vinstri menn, jafnaðarmenn, að ekki eigi að gerast í heilbrigðiskerfinu, þ.e. að ekki eigi að vera tvö kerfi, það eigi ekki að vera eitt kerfi fyrir þá ríku og eitt kerfi fyrir alla hina, að hinir ríku eigi ekki að borga sig fram fyrir, held ég að orðalagið hafi verið í þeirri miklu umræðu sem hefur verið hér undanfarin ár og er nú sem betur fer hætt núna hvað sem það stendur nú lengi.

Þetta er það sem getur gerst í þessu máli. Það eru engin svör við því. Það ræðir hv. þingmaður, framsögumaður málsins, ekki. Ekki heldur hinir ágætu þingmenn úr kjördæminu. Þeir svara okkur ekki vegna þess að það lá svo mikið á. Þetta er eitt af því sem þarf að leggjast yfir. Við í samgöngunefnd að minnsta kosti, hvað sem um aðra er, þurfum að leggjast yfir þetta í kjölfar málsins því það má búast við kröfum og óskum um það.

Ég hef nefnt Hvalfjarðargöng, tvöföldun Hvalfjarðarganga sem er skynug framkvæmd, sem er klárlega þjóðhagslega arðsöm. Ég horfi hér framan í hv. þm. Þór Saari sem hefur fjallað svolítið um þjóðhagslega arðsemi. Ef Spölur kemur nú og biður um ríkisábyrgð fyrir láni upp á — hvað ætli það sé, 15 milljarðar eða svo, ætlum við að neita því? Á hvaða forsendum eigum við að neita því?

Ég nefni annað dæmi úr mínu kjördæmi. Við höfum mikinn áhuga á því, bæði sem samgöngubót en ekki síður sem auknum lífsgæðum í höfuðborginni og breyttu skipulagi, að taka Miklubrautina sem allir þekkja í stokk frá Lönguhlíð og út að hinu gamla Miklatorgi sem var, við skulum segja við Snorrabraut. Þetta kostar á núvirði, fékk ég upp í dag hjá Vegagerðinni, 8,3 milljarða. Það er minna en Vaðlaheiði. Þetta mundi verða stórkostleg framkvæmd í Reykjavík og mundi gjörbreyta austanverðum miðbæ Reykjavíkur og tengja miðbæinn við útivistarsvæðið í Öskjuhlíð og Nauthólsvík. En við eigum ekki þessa 8,3 milljarða. En vill ekki þingið bara lána okkur? Vill ekki þingið bara setja ríkisábyrgð og við skulum borga þetta aftur með veggjöldum eða skuggagjöldum? Hvernig eigum við að svara því? Við hljótum að svara því játandi.

Þannig skapar afgreiðsla þessa máls, málsmeðferðin, ruðningurinn sem beitt hefur verið í málinu, að mér sýnist frá upphafi, vanda sem forgöngumenn málsins hafa ekki lyft litla fingri við að reyna að skýra eða leysa. Það er þess vegna með þungum huga sem ég tek þátt í umræðu um málið, það er þess vegna sem ég er tilneyddur að segja nei við framgöngu þess, tilurð þess í lög að lokinni þessari umræðu.