140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum nú Vaðlaheiðargöngin sennilega í síðasta sinn. Þetta hefur verið nokkuð mikil og ítarleg umræða. Hv. þm. Mörður Árnason sagði að niðurstaðan væri dapurleg. Ég er ekkert sammála því. Þetta var samþykkt 31:18, þetta er á ábyrgð þeirra sem samþykktu þetta. Ég er ekkert dapur yfir því þó að ég hafi verið í 18 manna hópnum sem greiddi atkvæði gegn þessu og muni greiða atkvæði gegn þessu áfram. Menn velja og hafna í þessu og ekkert annað að gera en sætta sig við meiri hlutann. Þeir þingmenn sem greiddu atkvæði með þessu verða að bera ábyrgð á því gagnvart kjósendum sínum.

Í netmiðlum fyrir norðan hefur komið fram að allir þingmenn kjördæmisins hafi greitt atkvæði með Vaðlaheiðargöngum. Það vekur aftur spurninguna um orðið „kjördæmi“ og hvernig að hlutunum er staðið. Ég hef nefnt það áður, ég ætla ekki að fara í gegnum það aftur, að þetta er siðlaust. Ég ætla ekkert að endurtaka þau orð sem ég tók mér í munn við 1. umr., að ég held, en þarna eru þingmenn kjördæmisins að taka eina framkvæmd fram fyrir aðrar framkvæmdir samkvæmt samgönguáætlun og flýta henni, sem sagt að veita kjördæmi sínu forgang. Reyndar vill svo til að önnur framkvæmd, Norðfjarðargöng, er í sama kjördæmi, þannig að þeir hinir sömu eru að mismuna kjósendum sínum. En svo vill til að Akureyri er mjög stór partur af þessu kjördæmi.

Undanfarið hefur að mínu mati borið á vissu siðleysi í efnahagsmálum og ríkisfjármálum á Íslandi. Ég hef margoft bent á það og hef óskað eftir skýrslu frá ríkisendurskoðanda um alls konar skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru færðar í fjárlög eða fjáraukalög. Stærsta skuldbindingin er náttúrlega Icesave en sem betur fer hafði þjóðin vit á að fella þá skuldbindingu niður með aðstoð forsetans. Einnig má nefna Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins A-deild, þar á eftir að færa inn 40 milljarða. Og ráðherra segir: Ja, þetta þarf ekkert endilega að falla til. En samt eru tryggingafræðingar búnir að reikna þetta út frá líkum, sennilega eru það miklu skotheldari útreikningar en mat á hlutabréfum og annað slíkt. Þannig að auðvitað kemur þetta til með að falla til.

Menn eru sem sagt viljandi að fela ýmislegt. Ég þarf ekki að nefna hérna Saga Capital en svo vill til að það fyrirtæki er líka í þessu sama kjördæmi. Lánaðir voru 19,6 milljarðar og þeir eru horfnir, voru reyndar afskaplega vafasamir, en eign á sínum tíma. Það hefði mátt standa betur að því, til dæmis með því að lækka hlut eigenda. Það var ekki gert þó að þeir fengju 19,6 milljarða með 2% vöxtum og verðtryggt. Margt heimilið hefði dreymt um að fá svoleiðis lánafyrirgreiðslu þó að ekki væru það endilega 19,6 milljarðar, eitthvað lægra.

VBS fékk líka fyrirgreiðslu. Sjóvá er enn eitt dæmið. Svona gerist trekk í trekk. SpKef er annað dæmi, 25 milljarðar þar, koma náttúrlega alltaf í ljós einhvern tímann. Einhvern tímann munu skattgreiðendur horfa framan í þessa ógn og þurfa að borga. Það getur nefnilega verið að innstæður og eignir tapist, en sjaldnast skuldir. Það er sjaldnast sem skuldir hverfa.

Ég lýk hér með þessum kafla um það sem verið er að gera, þ.e. að það er verið að fela. Ríki og sveitarfélög fyrir norðan eru að byggja þarna göng. Opinberir aðilar eru að byggja göng og það á einhvern veginn að líta þannig út að ekki sé verið að byggja göng, þ.e. að ríkið og sveitarfélögin séu ekki að byggja göng heldur verði þau bara til af sjálfu sér og svo eiga veggjöld að koma þarna inn og þetta er allt í sómanum.

Þar skapast hættulegt fordæmi sem hv. þm. Mörður Árnason nefndi þriðju leiðina, ég held það hafi verið hann sem nefndi það. Hún gæti nefnilega farið að komast á. Ég get alveg séð fyrir mér að við þingmenn Reykjavíkur samþykkjum veggjöld í gegnum stokkinn sem vantar á Miklubrautina. Þá verða bílarnir taldir og Reykjavíkurborg borgar 50 kall á hvern bíl eða eitthvað svoleiðis — skuggagjöld. Þá erum við komin með veggjöld. Þá er kominn tekjustofn eða tekjustreymi inn í dæmið. Þá viljum við ekkert bíða eftir einhverri leiðinlegri samgönguáætlun, við látum þetta bara ganga, göngum bara rösklega fram og erum ekkert að hanga yfir hlutunum.

Það er einmitt svona sem þetta er gert. Menn geta svo beðið með Norðfjarðargöngin og önnur göng, göng á Vestfjörðum, af því að þar eru menn kannski ekki eins úrræðagóðir. Auðvitað gætu Austfirðingarnir, bæði álverið og fiskvinnslufyrirtækin báðum megin, samþykkt að borga skuggagjöld í gegnum Norðfjarðargöngin. Og allt í einu verða þau bara byggð í haust, ekki málið. Það er búið að gefa fordæmi. Þriðja leiðin er komin í gang og allt er í ljómanum.

Ég hef líka áður nefnt HÍ ehf., í staðinn fyrir að háskólinn sé að mjatla einhverju í hann þá bara stofnar hann HÍ ehf. Það er fyrirtæki sem fær skuggagjöld af hverjum stúdent næstu 40 árin, milljón kr. á mann verðtryggt að sjálfsögðu miðað við laun og annað slíkt. Svo bara hverfur út úr ríkisrekstrinum allur þessi rekstur í HÍ — Háskóla Íslands, til að hafa þetta á hreinu. Háskóli Íslands getur þá farið á fullt við að byggja og gera alls konar kúnstir og fá til þess fjármagn með þriðju leiðinni. Þriðja leiðin verður mjög vænleg, herra forseti. Og hægt er að gera þetta sama með háskólasjúkrahúsið, allt í einu detta framkvæmdir af himnum ofan og enginn borgar eins og var með Hörpu. Þessi leið hefur sem sagt verið farin áður og verður nú enn víðtækari.

Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu, en ég bendi á að það er á ábyrgð 31 þingmanns að búa til þessa leið og hætta að sýna skuldbindingar ríkissjóðs í botn. Eitthvað pínulítið er sýnt en hætt að horfa á einhver leiðindi eins og jafnræði borgaranna. Samgönguáætlun sem átti nú að leysa þennan vanda, hún leysir þá bara engan vanda. Núna verður bara farið fram hjá samgönguáætlun, hún missir allt gildi sitt. Jafnræði borgaranna hverfur og það er kannski ágætt hjá hæstv. velferðarstjórn að fara þá leiðina.

Við höfum dæmi um það hvernig fer þegar skuldbindingar ríkissjóðs eru ekki sýnilegar. Ég nefni Grikkland sem dæmi. Þeir eru komnir í vanda. Það getur vel verið að ég muni þurfa að standa hér, ef ég verð þá á þingi, og segja við þingmennina 31, ef einhverjir þeirra verða á þingi, að þessu hafi þeir nú áorkað ef við lendum í sama vanda og Grikkir. Þegar gætir mikillar tilhneigingar til að sýna ekki leiðinlegar skuldbindingar eins og Hörpu, háskólasjúkrahúsið o.s.frv. Að mínu mati er sú tilhneiging stórhættuleg.

Það er á ábyrgð þeirra þingmanna sem samþykktu þessi ósköp og vissu hvernig í málinu liggur að þetta er kjördæmamál, kjördæmapot, að verið sé að flýta framkvæmdum og mismuna þegnum landsins. Mér finnst þetta ekkert dapurlegt, ég bara segi mitt nei og við það stend ég. Hinir sem segja já þurfa þá að standa við það.