140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem hefur nú verið alllengi á þingi og séð mörg stefnumálin ná fram að ganga og önnur ekki og verið þátttakandi í ýmsum róttækum stefnubreytingum í stjórn og stjórnsýslu landsins: Finnst honum ekki afleitt að þessi leið skuli vera farin þegar verið er að breyta samgönguáætlun? Vissulega er verið að breyta um stefnu, það er verið að fara leið einkavæðingar í vegaframkvæmdum og samgöngumálum. Finnst honum ekki afleitt að formleg og fagleg leið skuli ekki farin og samgönguáætlun tekin og sagt: Hér erum við með samgönguáætlun. Nú ætlum við að fara út í almenna stefnubreytingu í samgöngumálum og fara að fjármagna samgönguúrbætur með skuggagjöldum eða veggjöldum og gera þeim sem eiga peninga auðveldara með að ferðast um landið, heldur er verið að gera þetta svona með einhverjum bakviðdyrnar-botnlanga-vinkli sem eru, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson kallaði það, grískar bókhaldsaðferðir. Er hann sammála mér í því að svona stefnubreytingar muni alltaf á endanum, eins og maður hefur oft séð, leiða til þess að einhvers konar upplausn kemst á í samgöngumálum þar sem allir fara að rífast og heimta sitt einmitt vegna þess að búið er að gefa fordæmi fyrir nýjum leiðum?