140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, ég ætla hins vegar að fara fram á það að þeir aðilar sem ég get að vísu ekki séð í salnum en bera ábyrgð á þessu máli — eftir því sem ég best veit er þetta mál að koma úr hv. fjárlaganefnd og formaður hennar er hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Ég hefði viljað fá að vita hvort menn munu með einhverjum hætti lækka tilkostnað ríkisins, t.d. með því að minnka snjómokstur eða hætta honum eða jafnvel að loka veginum um Víkurskarð einhvern tíma ársins. Ég held að það skipti mjög miklu máli að þessar upplýsingar komi fram og ég fer fram á það, virðulegi forseti, að þetta verði upplýst. Ef einhver kemur í salinn til að svara þessari spurningu, mér er svo sem alveg sama hvaða hv. stjórnarliði það er …

(Forseti (SIJ): Forseti getur upplýst að framsögumaður málsins, hv. þm. Björn Valur Gíslason, er í hliðarsal og heyrir væntanlega mál þingmannsins.)

Ég fer þá fram á það að hv. þm. Björn Valur Gíslason upplýsi það. Það hefur verið rætt, kannski ekki úr ræðustól, þ.e. ekkert verið fullyrt um það en maður hefur heyrt á máli manna að til að endar nái saman í þessu verkefni verði farið í einhverjar slíkar aðgerðir. Hv. þm. Þór Saari las upp úr nefndaráliti meiri hlutans þar sem hann vísaði til þess að hér væri um það að ræða að menn ætluðu að spara í snjómokstri. Ég held að það skipti mjög miklu máli fyrir málið í heild sinni að það verði upplýst.

Ég er síðan þeirrar skoðunar að almennt eigi í samgöngumálum að breyta forgangsröðinni í grundvallaratriðum. Við eigum að leggja áherslu á umferðaröryggismál. Við erum í þeirri stöðu, virðulegi forseti, að við eigum allar upplýsingar sem við þurfum um hvaða vegir eru hættulegir. Við erum búin að raða þeim niður og ég er ekki að tala um að menn eigi að leggja minni áherslu á kjördæmi sín svo ég tali bara hreint út. Mér finnst mjög eðlilegt að fólk sem er kosið til starfa á þingi gæti hagsmuna sinna kjördæma og síns fólks. Auðvitað verður alltaf ákveðinn núningur en ég tel hins vegar að við hv. þingmenn ættum að geta sameinast um að forgangsraða í þágu umferðaröryggis. Ef við gerum það þýðir það að færri einstaklingar slasast í umferðinni. Alvarlega slösuðum einstaklingum hefur fjölgað. Það þýðir bara eitt, alvarleg slys þýða að fólk verður aldrei samt á eftir. Það er skilgreining á alvarlegum slysum. Sumt fólk þarf að breyta lífi sínu í grundvallaratriðum.

Virðulegi forseti. Vegna þess að þetta var rætt fer ég fram á það að framsögumaður málsins, hv. þm. Björn Valur Gíslason, upplýsi um hvort til standi að minnka snjómokstur eða hindra með einhverjum öðrum hætti að fólk fari um Víkurskarðið. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt af augljósum ástæðum að það verði upplýst og ég fer fram á það, virðulegi forseti, að það verði gert áður en greidd verða atkvæði um þetta mál.