140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[18:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og við vitum er eitt af því sem við hv. þingmenn eigum að gera að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Við gerum það meðal annars með fyrirspurnum eins og kemur fram í lögum um þingsköp. Ég hef spurt, og hv. efnahags- og viðskiptanefnd einnig, oft og í langan tíma um ákveðið málefni sérstaklega og þá er ég að vísa í SpKef og Byr. Það hefur verið lítið um svör. En nú lesum við í Fréttablaðinu, og heyrum í Ríkisútvarpinu um gögn sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki fengið en hefur oft beðið um. Eins og við þekkjum þá kom fram kvöldið fyrir sérstaka umræðu um SpKef (Forseti hringir.) áður óbirt skýrsla í Ríkisútvarpinu og síðan hefur Fréttablaðið fjallað ágætlega um þetta. (Forseti hringir.) Ég held að það væri við hæfi að við fengjum svör við þessum spurningum þannig að við getum í það minnsta haldið uppi samræðum við blaðamenn sem hafa gögn sem við fáum ekki.