140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:07]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum að taka fyrir einn sérstæðasta vinkil á þingmáli sem ég hef séð á þeim þremur árum sem ég hef verið á þingi. Hér er að fara í gang stefnubreyting í samgöngumálum án samþykkis umhverfis- og samgöngunefndar, án samþykkis samgönguráðherra landsins. Þetta er sérkennileg aðferð við stefnumótun og alls ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Þetta gengur þvert gegn áliti eins helsta eftirlitsaðila ríkissjóðs og Alþingis, þ.e. Ríkisábyrgðasjóðs. Hér er líka um að ræða stefnubreytingu í meðferð fjárreiðna ríkissjóðs sem AGS veit örugglega ekki um.

Frú forseti. Afgreiðslan á þessu máli í dag er afturför hjá Alþingi og fjárlaganefnd og Alþingi til vansa. Hér er farið aftur í tímann, með málatilbúnað sem við eigum að hafa lært af reynslunni að mun kosta þjóðina mikið þegar upp er staðið.