140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Nú þegar þetta frumvarp er komið til lokaatkvæðagreiðslu við 3. umr. vil ég fagna því að við séum að ljúka þessu máli og framkvæmd geti hafist. Ég hef alla tíð sagt að þetta er gott verk. Þetta var fyrst skrifað inn með stöðugleikasáttmála 2009 þó undirbúningur fyrir norðan hafi staðið lengur. Þetta verk mun skapa mikla atvinnu og mun auka umferðaröryggi. Það mun gefa ríkissjóði og öðrum opinberum aðilum 2 milljarða kr. í opinberar tekjur á framkvæmdatímanum og um 4 milljarða kr. þegar vaskur verður greiddur upp að lokum. Þetta verk verður borgað upp af veggjöldum, ef ekki eftir 25 ár, þá eftir 30 ár að fullu. Þetta verkefni mun styrkja og stækka atvinnusvæði og það er mikilvægt vegna væntanlegra framkvæmda við Bakka við Húsavík þar sem uppbygging er að hefjast. Virðulegi forseti. Ég spái því að það sé ekki langt í það að allir vildu þessa Lilju kveðið hafa.