140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn höfum stutt þetta mál á öllum stigum þess til þessa. Við stóðum að lagasetningu sem lagði grunn að stofnun hlutafélags um málið og í því fólst stuðningur við þá hugmynd að flýta framkvæmdinni með veggjöldum enda teljum við þetta vera afar mikilvæga samgöngubót.

Það hefur hins vegar ávallt verið þannig fyrir mitt leyti að forsendan fyrir því að Vaðlaheiðargöng fengju flýtimeðferð utan samgönguáætlunar væri að verkefnið mundi bera sig sjálft. Þannig hefur verið haldið á þessu máli að óvissa er um hvort svo verður. Það er þess valdandi að ég get ekki stutt málið í þeirri mynd sem það kemur til atkvæðagreiðslu. Maður stendur því hér með blendnar tilfinningar í brjósti, maður hefur mikla velvild í garð verkefnisins en það er ómögulegt að styðja það vegna þess í hvaða útfærslu það fer í gegnum þingið. En ég ætla engu að síður, vegna þess stóra áfanga sem verkefnið felur í sér fyrir Eyfirðinga og Þingeyinga og nærsveitarmenn, að óska þeim til hamingju (Forseti hringir.) með að hér séu að verða þessi miklu kaflaskil, þessi stóri áfangi í samgöngumálum þeirra.