140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason ræddi um ábyrgð minni hluta. Ábyrgð minni hluta á Alþingi er að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar. Hv. þm. Björn Valur Gíslason veit fullvel að þau mál sem hann nefndi hér eru ekki þau mál sem stjórnarandstaðan hefur lagst gegn. Þetta eru þvert á móti þau mál sem við í stjórnarandstöðunni höfum rætt um í allan vetur, allan þann tíma sem við höfum verið að semja um þinglokin að ættu að vera tekin fyrir og ágreiningsmál lögð til hliðar en það er ekki þannig.

Hæstv. ríkisstjórn fer fram með þau mál sem hún vill fara fram með, ekki þau mál sem eru brýnust eins og þau mál sem hv. þm. Björn Valur Gíslason rakti áðan, heldur þau mál sem eru pólitísk áherslumál ríkisstjórnarinnar.

Um hvað snýst þessi deila um sjávarútveginn? Snýst hún um það að hæstv. ríkisstjórn sé að búa til betri sjávarútveg? Nei, hún snýst á endanum um það, eins og við höfum séð í bloggskrifum hv. þingmanna og yfirlýsingum hæstv. ráðherra, að ríkisstjórnin er að fara í kosningabaráttu og ríkisstjórnin er með tóman kassa og ríkisstjórnin vill blóðmjólka eina atvinnugrein til að geta borað göng, eflt háskóla og gert öll góðu málin sem fram undan eru á kosningavetri. Um það snýst þetta kristaltært. Og við hv. þm. Björn Val Gíslason vil ég segja þetta: Við getum klárað þessi mál, ekki vandamálið, og það tekur stuttan tíma vegna þess að flest þau mál sem hv. þingmaður nefndi eru einmitt eins og hann talaði um ekki í ágreiningi. En hann veit líka fullvel hvað þarf að gerast til þess að svo megi verða. Við þurfum að ná saman um hin málin og því hvet ég hv. þingmann til að beita sér fyrir því í sínum þingflokki að menn komi fram með þannig (Forseti hringir.) afstöðu að það sé einhver von til þess að menn nái saman.