140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga hafa landsmenn séð það svart á hvítu að Alþingi Íslendinga hefur verið tekið í gíslingu af minni hlutanum hér í þessum sal. Ítrekað hefur verið slegið á útrétta hönd ríkisstjórnarflokkanna um sátt í stóru deilumáli sem hér hefur verið inni, útfærslu á veiðigjaldi. Staðan er þessi: Það er gat í fjárlögum ársins upp á 20 milljarða kr. Það eru ekki til nægir peningar til að reka menntakerfið, til að reka sjúkrahúsin. Á sama tíma er gríðarlegur arður að skapast af útgerð, af fiskveiðum (Forseti hringir.) og aðeins broti af þeim arði viljum við deila til þjóðarinnar allrar í gegnum frumvarp um veiðigjöld.

Vörslumenn sérhagsmuna hafa birst í þessum sal undanfarna daga. Með málflutningi sínum standa þeir gegn almannahagsmunum. Um það snýst umræðan á Alþingi Íslendinga í dag, sérhagsmunir á móti almannahagsmunum. Á sama tíma og rekstur ríkissjóðs er mjög viðkvæmur, við eigum ekki fyrir okkar brýnustu útgjöldum, standa menn hér í málþófi upp á 80 klukkustundir í tíu daga rúma og eru að gæta þess að ekki verði gengið á gríðarlegan hagnað sem skapast af útgerð. Vörslumenn sérhagsmuna standa gegn almannahagsmunum. Það birtist okkur hér og þrátt fyrir ítrekuð boð okkar um að leita sátta og málamiðlunar í þessu máli hefur minni hlutinn tekið Alþingi Íslendinga í gíslingu og er hér að verja hagsmuni útgerðaraðalsins gegn hagsmunum almennings á Íslandi. (Gripið fram í: … útreikningar sem þú getur staðið við.)