140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Það er öllum ljóst að störf þingsins eru í uppnámi og búin að vera það í marga daga. Ég held að það sé líka öllum ljóst að ábyrgð á því hlýtur að vera í höndum stjórnarmeirihlutans. Allt frá páskum þegar dembt var inn í þingið ógrynni af málum, ríkisstjórnarmálum, höfum við í stjórnarandstöðunni lagt fram hverja sáttatillöguna á fætur annarri, m.a. til að koma áfram þeim góðu málum sem þingflokksformaður VG talaði um. Við hefðum reyndar viljað ganga miklu lengra og höfum boðið fram mál varðandi skuldamál heimilanna, verðtryggingarmál sem við framsóknarmenn höfum verið með hér inni, um öryggi borgaranna og atvinnumál, mál sem eru ekki á málaskrá ríkisstjórnarinnar. Við hefðum viljað ganga lengra og klára þau mál líka.

Hér hefur verið sérkennileg umræða um umræður síðustu daga. Það verður að segjast, frú forseti, að það er dálítið seint í rassinn gripið að koma hér síðustu tvo, þrjá dagana og vera tilbúin að setjast niður með stjórnarandstöðunni og leysa mál sem við höfum talað um í margar vikur að setjast yfir í forgangsröðun og reyna að finna lausnir á. Það sorglega er að það er hægt að ná sátt og niðurstöðu í flest mál. Það er mjög stutt á milli. Það viðurkenna allir, bæði stjórnin og stjórnarandstaðan. Þeir sem vinna í útgerðinni viðurkenna að þeir séu tilbúnir til að greiða meira en þeir ella gætu í skamman tíma til að standa undir velferð samfélagsins á erfiðum tímum. En það má ekki ganga of langt og þau frumvörp sem hér hafa legið fyrir eru illskiljanleg, óskiljanleg, hreinasta þvæla og það veit enginn hvað í þeim stendur. Þess vegna höfum við reynt að fá niðurstöðu. Það væri skynsamlegt að setjast yfir það og klára málið í ágúst til að mynda. Það er skynsamlegt að hlusta á þær sáttatillögur sem við höfum komið með í margar vikur en það er sérkennilegt að halda því fram þegar menn hlaupa hér fram síðustu sólarhringana með tillögur að það séu sáttatillögur ríkisstjórnarinnar. Þannig liggja menn sem þeir um sig búa.