140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð í upphafi að segja að það er kostulegt að hlusta á hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem töpuðu kosningum fyrir þremur árum og heyra að þeir skuli ekki enn vera búnir að átta sig á því.

Ég ætlaði að ræða um málefni íþróttahreyfingarinnar. „Heilbrigð sál í hraustum líkama“ eru einkunnarorð íþróttahreyfingarinnar og þó að sú sem hér stendur sé hvorki íþróttamannslega vaxin né liggi yfir og fylgist með íþróttum daglangt, eins og sumir gera núna á sumrin, þá hef ég getað tekið undir það að öllum, og sérstaklega börnum og ungmennum, sé hollt að þjálfa líkama sinn og taka þátt í íþróttum undir handleiðslu fagmanna og einnig að það sé hverjum manni hollt og líka börnum og unglingum að vera hluti af liðsheild sem keppir að sameiginlegu marki. Þess vegna hef ég glaðst með litlum frænkum og frændum sem hafa skorað sitt fyrsta mark eða náð árangri á sviði íþrótta en ekki lengur, því miður, frú forseti.

Ómar Ragnarsson hefur nýlega upplýst alþjóð um það hvernig þeim sem skora sitt fyrsta mark er refsað líkamlega með barsmíðum, flengingum, jafnvel þannig að blæði undan, í sturtuklefum eftir að leik lýkur. Íþróttahreyfingin segir að sér komi þetta á óvart en yfirmaður Olweusar-áætlunarinnar upplýsir í Fréttablaðinu í dag að honum sé þetta kunnugt. Ómar Ragnarsson hefur skorað á íþróttahreyfinguna að láta rannsaka þetta mál. Þetta hafi byrjað í landsliðshópnum og breiðst eins og eldur í sinu niður í nýliða- og barnahópana, sérstaklega í boltaíþróttunum. Hann hefur krafist þess að íþróttahreyfingin grípi til aðgerða. Ég vil spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem er íþróttamannslega vaxin, uppeldisfrömuður, og hefur mikinn áhuga á íþróttum hvort hún sé mér sammála um að þetta verði að rannsaka, fordæma og uppræta.