140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er rétt sem fram hefur komið hér í umræðu um störf þingsins að það er margt óvanalegt og óeðlilegt á Alþingi í dag. Það er til dæmis óvanalegt að við séum hér enn að störfum og vitum ekki hvenær þessu þingi eigi að ljúka þegar liðnar eru rúmar tvær vikur frá því að starfsáætlun hafði dagsettan síðasta þingdag.

Það er líka óvanalegt að tvö stór mál sem ríkisstjórnin segist leggja mikla áherslu á séu enn í nefnd, ekki komin út úr nefnd þegar þannig háttar til. Stjórn fiskveiða og rammaáætlun sem er nefnd mjög til sögunnar í þessari umræðu eru enn í nefnd og það er kvartað undan því að þau fáist ekki afgreidd.

Það er líka óvanalegt að vera með ríkisstjórn sem í hverju málinu á fætur öðru á sama kjörtímabilinu virðist vilja sundra þjóðinni en ekki sameina hana. Ég nefni Evrópusambandsmálið þar sem ekki mátti leita samráðs við þjóðina. Ég nefni Icesave-málið þar sem ríkisstjórnin lenti í þeirri stöðu að 98% þeirra sem kusu voru á öndverðum meiði við stjórnarmeirihlutann. Ég get nefnt stjórnarskrármálið. Menn koma upp núna og segja: Við viljum stunda gagnsæ vinnubrögð, við viljum eiga samráð, við viljum stunda samvinnustjórnmál og virða reglur lýðræðisins. Ekki hefur mikið verið hlustað á umsagnaraðila í því máli, ekki frekar en í því umdeilda máli sem hér hefur stöðvað þingstörfin, veiðigjöldunum. Það hefur einfaldlega ekki verið hlustað. Og það þýðir ekkert fyrir menn, sem eru frægir þrasarar og ræðulengdarmeistarar, að koma hingað upp og slá um sig með einhverjum slíkum frösum eins og hv. þm. Mörður Árnason gerði, sem á sínum tíma flutti langa ræðu í þeim eina tilgangi að stöðva mál frá stjórnarmeirihluta þess tíma um Ríkisútvarpið aftur og aftur, (Forseti hringir.) eins og sumir aðrir hafa gert um vatnalögin.

Ég er þeirrar skoðunar þrátt fyrir að við höfum átt í miklum átökum um það hvernig eigi að klára þetta að það sé hægt, það þurfa bara allir að leggja sitt af mörkum og leggja enn meira á sig.