140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt, það er óvanalegt að við séum enn að funda á þessum tíma, enda frekju og yfirgangi Sjálfstæðisflokksins engin takmörk sett. (Gripið fram í.) Það er óvanalegt að minni hlutinn bjóði ríkisstjórninni að hún fái að afgreiða nokkur mál og það er óvanalegt að minni hlutinn ætli að ákveða fjárhæð skatta sem lagðir eru á hér á Alþingi eins og fram kom hjá formanni þingflokks Framsóknarflokksins, en Framsóknarflokkurinn er hér eins og í bandi hjá Sjálfstæðisflokknum á þessu sumarþingi.

Þetta andlýðræðislega málþóf er til þess gert að taka fjárstýringarvaldið af lýðræðislega kjörnum meiri hluta á Alþingi og það er jafnljótur leikur og dagurinn úti fyrir er fallegur. Það er nóg komið. Það þarf að ljúka gerð fjárlaga sem leggja á fram samkvæmt stjórnarskrá á haustmánuðum. Það þarf að afgreiða frumvarp sem hér liggur fyrir um veiðigjöld og ég hvet til þess að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi leiti þeirra leiða sem leita þarf til að það mál komi til atkvæðagreiðslu því að það er vegið að grundvallarundirstöðu lýðræðisins. Ef minni hlutinn ætlar sér með frekju og yfirgangi að taka fjárlagavaldið af lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta á Alþingi þá er ofbeldið sem í málþófsréttinum felst orðið svo yfirgengilegt að hér verður að skera á hnútinn.